150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

verðtrygging og bifreiðastyrkur.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undanfarið höfum við hæstv. fjármálaráðherra tekist á um verðtrygginguna. Þar hefur margt komið fram sem er eiginlega stórfurðulegt. Í fyrsta lagi virðist sem lögmál verðtryggingar sé meitlað í stein af guði eða einhverjum, að það sé óbreytanlegt, en á sama tíma og það er þannig hefur hæstv. fjármálaráðherra bent á að almannatryggingakerfið sé undir í sambandi við störf.

Ef þetta er svo alvarlegt að það þarf að vera með verðtryggingu út af ellilífeyrisþegum, út af fjárfestum, langar mig að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum á þetta aðeins við um aðila í almannatryggingakerfinu, virkilega fatlað fólk sem fær t.d. bílastyrk og hefur sett inn óvísitölutryggða upphæð frá árinu 2009? Ef hún hefði verið vísitölutryggð ætti einstaklingur í dag að fá 1,5 milljónir í stað 1 milljónar, hann getur ekki leyst út bílinn sinn til að fara í vinnu, til læknis eða annað. Hann er búinn að selja hinn bílinn. Ef vísitala hefði verið inni í þessu hefði hann átt fyrir því og ætti meira að segja 0,5 milljónir afgangs sem hann hefði ekki þurft að nota.

Hvers vegna er það? Er það samþykkt að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn ákveði að þessir aðilar séu þeir einu sem fái ekki verðtryggðar bætur? Milljón á verðlagi ársins 2009 samsvarar 1,5 milljónum í dag. Við erum að tala um 426.000 kr. sem eru horfnar, bara vegna þess að þetta var ekki tengt við vísitölu. Hvaða réttlæti er í þessu? Er þetta fyrirframákveðið til að klekkja á þessum einstaklingum eða er þetta hugsunarvilla sem þarf að leiðrétta?