150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

verðtrygging og bifreiðastyrkur.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svarið er að þetta eru ekki einu aðilarnir sem ekki geta gengið út frá því sem vísu að fjárhæðir, sem um hefur verið tekin ákvörðun í kerfinu hjá okkur, fylgi inn verðlagi í framtíðina. Ríkið væri í vondum málum ef öll útgjaldahliðin væri verðtryggð. Þá væri í raun og veru sjálfvirkur útgjaldavöxtur án þess að um það væri fjallað sérstaklega hér á þinginu. En þetta tiltekna mál er í raun og veru, þegar upp er staðið, spurning um það hvernig menn brjóta niður það svigrúm sem er til viðkomandi málaflokks í velferðarkerfinu hjá okkur niður á einstaka liði. Það álitamál sem hv. þingmaður vekur máls á hér hefur fyrst og fremst komið inn í umræðuna núna út af gengisbreytingum, gengisbreytingum sem ekki hafa skilað sér út í verðlagið. Það eru gengisbreytingarnar, ekki verðbólgan, sem valda því að bílar eru að verða dýrari í innkaupum og styrkurinn dugar þess vegna hlutfallslega skemur á móti tilkostnaði við að útbúa þessar bifreiðar. Það er alveg álitamál að við getum látið það gerast í báðar áttir, bæði þegar gjaldmiðillinn okkar er að styrkjast eða veikjast, að það séu svona sveiflukennt hvernig styrkurinn dugar hverju sinni til að mæta þeim kostnaði sem við erum hérna að reyna að hjálpa mönnum með.

Ég held að það sé út af fyrir sig góð ábending hjá hv. þingmanni að það hefur dregið mjög úr hlutfallslegum stuðningi við þessi mikilvægu kaup þeirra sem á þessu þurfa að halda. En það hefur ekki með verðlagið að gera í mínum huga.