150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

verðtrygging og bifreiðastyrkur.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, en ég er algjörlega ósammála honum. Ef þetta hefði verið verðtryggt væri þessi maður ekki í þessari aðstöðu. Það er algjörlega staðreynd. Þess vegna er óskiljanlegt að það sé hægt að klippa verðtryggingu út bara þarna. Ráðherra hlýtur að vera í andstöðu við sjálfan sig þegar hann bendir á að þarna sé í lagi að klippa út en það sé ekki í lagi að klippa út verðtryggingu á íbúðum, sem lánin eru þegar búin að hækka hjá um 20–30 milljarða. Meira að segja Samtök atvinnulífsins lýsa áhyggjum af genginu, segja að núna sé hætta á því að verðbólga fari af stað. Nú er allt að hækka, byggingarvísitalan, kostnaður og annað. Verðbólgan er á leiðinni og þess vegna er óskiljanlegt fyrirbrigði að það skuli vera hægt að taka út og strika yfir verðtryggingu á einum stað en segja svo: Nei, það er náttúrulögmál, það er ekki hægt að gera það á hinum staðnum, þ.e. fyrir heimilin.