150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

verðtrygging og bifreiðastyrkur.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að greina frá því hér að ríkisstjórnin skrifaði í fyrra undir sérstaka yfirlýsingu sem tengdist lífskjarasamningunum þar sem fjallað var um verðtryggingu og samsetningu vísitölunnar. Þar var að kröfu launþegahreyfingarinnar gengið út frá því að hingað fyrir þingið kæmi frumvarp þar sem húsnæðisliðurinn færi út úr vísitöluviðmiðinu. Í millitíðinni hefur ýmislegt gerst en á fundi nýlega með þessum sömu aðilum, talsmönnum launþegahreyfingarinnar, kom fram það sjónarmið að fallið væri frá kröfunni um að taka húsnæðisliðinn út vegna þess að menn teldu að það þjónaði ekki, við þær aðstæður sem eru uppi núna, hagsmunum launþega í landinu. Það er staða þess máls í augnablikinu.