150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

frumvarp um einkarekna fjölmiðla.

[15:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð og hlý orð til Sjálfstæðisflokksins og fjölmiðla í landinu. Það er alveg ljóst að það er metnaðarmál hjá ríkisstjórninni að styðja við íslenska fjölmiðla. Það er mjög brýnt fyrir tungumálið okkar, það er mjög brýnt vegna þeirrar lýðræðislegu umræðu sem fjölmiðlar veita og síðast en ekki síst vegna þess aðhalds sem fjölmiðlar veita í landinu, bæði atvinnulífi, stjórnmálum og hverju sem um er að ræða.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er getið um það að við ætlum að styðja við einkarekna fjölmiðla. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja 400 milljónum í þágu einkarekinna fjölmiðla og það er úrlausnarefni þeirrar sem hér stendur að vinna úr því með reglugerð. Ég hef hins vegar fulla trú á því, vegna þess sem stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin vinni sig í gegnum þetta mál. Nefndir taka sér oft ágætistíma í að vinna að málum og framgangi þeirra. Ég hef átt mjög gott samstarf við formann allsherjar- og menntamálanefndar og ég er sannfærð um og veit það að hann hefur miklar áhyggjur af þessum vanda eins og sá flokkur sem hann situr fyrir.