150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

frumvarp um einkarekna fjölmiðla.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er ekki mjög miklu nær um þetta mál nema ég átta mig á því að hæstv. ráðherra telur að ég beri sérstakan hlýhug til Sjálfstæðisflokksins [Hlátur í þingsal.] sem er umdeilanleg túlkun á mínum orðum. En við skulum ekki ræða frekar um það.

Mig langar að víkja talinu að öðru og ekki síður alvarlegu máli og það er vandi þeirra listamanna sem ekki hafa notið listamannalauna, listamanna sem hafa framfæri sitt og lífsviðurværi af því að koma fram fyrir fólk, skemmta fólki. Blasir nú við sú staða fyrir þessum listamönnum að rekstrargrundvöllur þeirra og lífsafkoma hefur hrunið í einu vetfangi og þarf ekki að fara út í ástæður þess. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um þetta, en ég er viss um að hún hefur gaumgæft þennan vanda og hefur ýmsar hugmyndir um það hvernig við getum farið að því að mæta honum og mæta þessu fólki. Mig langar að heyra eitthvað af þeim hugmyndum.