150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

frumvarp um einkarekna fjölmiðla.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvægt málefni sem hv. þingmaður minnist hér á, listir og skapandi greinar, sem skiptir Íslendinga og alla heimsbyggðina auðvitað mjög miklu máli. Ég vil segja að eitt af því fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var setja sérstakan stuðning í menninguna. Þegar við vorum að útfæra það vorum við með aukinn stuðning til þeirra greina, til að mynda kvikmynda og tónlistar, og við lagskiptum því. Við gerðum þetta í mjög góðu samstarfi við Bandalag íslenskra listamanna og allan geirann, ef ég má orða það svo. Ég hef heyrt af því að menn vilji fara betur yfir listamannalaunin og fá jafnvel svipaða skiptingu og það erum við að skoða. Ég er mjög ánægð með það samstarf sem við höfum átt við Bandalag íslenskra listamanna. Það eru deildar meiningar um hvort við eigum líka að gera þetta varðandi listamannalaunin en við gerðum þetta svo sannarlega með þeim stuðningi sem við veittum vegna þess faraldurs sem gengur hér yfir.