150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárhagsstaða stúdenta.

[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Félagsstofnun stúdenta er sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð en aðild að stofnuninni eiga allir skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands, háskólinn og menntamálaráðuneytið. Í dag rekur Félagsstofnun stúdenta m.a. leikskóla stúdenta og stúdentagarða. Nýlega kom tilkynning frá stúdentagörðum um viðbrögð við Covid. Stúdentum sem lenda í tímabundnum tekjumissi vegna aðstæðnanna verður gefið svigrúm til að greiða 75% af leiguverði í apríl, maí og júní. Þeir sem kjósa þetta úrræði þurfa að hafa gert upp útistandandi skuld 30. júní 2020. Á sama tíma hafa nemendur á stúdentagörðunum sem eru með börn á leikskóla stúdenta fengið kannski sex daga dvöl fyrir allan apríl fyrir börnin sín og hafa samt þurft að greiða fullt gjald fyrir skerta leikskólaþjónustu.

Stúdentar eru að lenda í erfiðleikum í námi og starfi meðfram námi. Það verður að hafa í huga að vinna meðfram námi er nauðsynleg fyrir mjög marga því að lánasjóðskerfið er svo lélegt. Stúdentar með börn sem vinna fyrir sér yfir sumarið geta kannski fengið framfærslulán sem rétt dugar fyrir leigunni á stúdentagörðum, hvað þá annarri framfærslu. Það er augljóslega ómögulegt fyrir flesta sem treysta einungis á sumarvinnu.

Fyrr í dag voru kynnt úrræði fyrir stúdenta um störf í sumar. Stúdentar eru hins vegar nú þegar í vanda vegna skuldbindinga sinna í námi og starfi. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar duga ekki mun góður hópur námsmanna ekki fá laun fyrr en í júlí. Námsmenn eru nú þegar í vanda og hafa ekki svigrúm fyrir fjárhagslegt óöryggi og óvissu. Kröfur nemenda hafa verið að búa við félagslegt öryggi, að öryggisnetið grípi þá ef vinnumarkaðurinn gerir það ekki, sem er auðvitað miðað við ástandið fullkomlega óljóst. Hvers vegna skilur ríkisstjórnin nemendur eftir í því óöryggi um miðjan maí að vita ekki hvaða launaumslag bíður þeirra fyrr en mögulega í júlí? Stúdentar hafa nefnilega kallað eftir hraðari viðbrögðum.