150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárhagsstaða stúdenta.

[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu stúdenta. Það er rétt hjá honum að í dag kynntum við félags- og barnamálaráðherra umfangsmiklar aðgerðir til að bregðast við þessari stöðu. Mig langar til þess að nefna það að Lánasjóður íslenskra námsmanna fór strax í mjög sýnilegar og öruggar aðgerðir til að ná utan um stúdentana strax í mars.

Það eru nokkrir hlutir sem ég vil nefna. Það er búið að seinka afborgunum hjá þeim sem þurfa á því að halda sem hafa lokið námi. Við höfum skoðað aðra fresti. Við erum að rýmka margt sem tengist lánasjóðnum.

Ég vil líka nefna að við erum að skapa þúsundir og aftur þúsundir nýrra starfa fyrir námsmenn. Við erum að búa til nám í sumar upp á um 200 námsleiðir. Við höfum gert það þannig að stúdentar geta fengið lán fyrir því námi sem þau fara í. Þetta er allt einingabært og þetta er til þess fallið að nemendur geti flýtt námi sínu kjósi þeir að gera svo. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að nemendur búi við jafnræði til náms. Ef einhverjar vísbendingar eru þess efnis að hér séu að verða einhverjar breytingar vegna þeirrar stöðu sem uppi er bregðumst við að sjálfsögðu við því.

Á eftir mun ég svo greina frá Menntasjóðnum sem er núna í allsherjar- og menntamálanefnd og ég er mjög bjartsýn á framgang þess máls. Þar erum við að tala um eina stærstu kerfisbreytingu sem hefur átt sér stað á Lánasjóði íslenskra námsmanna í nokkra áratugi.