150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist þessi tillaga vera til bóta. En ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hv. þingmann út í frumvarpið sem við erum að fara að greiða atkvæði um í heild sinni nú á eftir. Hér á göngum þinghússins hef ég spjallað við stjórnarliða sem standa í þeirri meiningu að þeir hafi fellt breytingartillögu Samfylkingarinnar um skilyrði vegna skattaskjóls og aflandsfélaga, að þeir nytu ekki stuðnings ríkisins sem hefðu nýtt sér skattaskjól til skattundanskota, vegna þess að hún væri óþörf, vegna þess að búið væri að útiloka þessa aðila með skilyrðunum í frumvarpinu sjálfu og breytingartillögum meiri hlutans. Þetta kemur mér á óvart vegna þess að ég get ekki komið auga á þær girðingar í þeim skilyrðum.

En ég vil spyrja hv. þingmann, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvort hann geti bent mér á hvar þær girðingar og þau skilyrði nýju eru í frumvarpinu sem taka af öll tvímæli um að þeir sem hafa nýtt sér og nýta sér skattaskjól, aflandsfélög og flóknar millifærslur alls konar, til þess að koma sér undan skattgreiðslum eða til að greiða lægri skatta, fái ekki stuðning ríkisins á þeim erfiðu neyðartímum sem við glímum nú við.