150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við áttum þessa umræðu að einhverju leyti í gær. Það er alveg ljóst að þeir sem nýta sér skattaskjól eru ekki að framfylgja íslenskum lögum og þar með uppfylla þeir ekki ákvæði þessa frumvarps. Það er líka alveg ljóst, þó að tilgangur hv. þingmanns með breytingartillögu sem lögð var fram í gær og náði ekki fram að ganga, að sú tillaga hefði ekki heldur girt fyrir það sem kallað er skattaskjól. Hún hefði hins vegar útilokað mörg fyrirtæki, ekki síst ung, upprennandi hugverkafyrirtæki, frá því að njóta eða sækja um stuðningslán vegna þess að þau eru með starfsemi, m.a. í því sem viðkomandi hv. þingmaður kallar lágskattaríki. Lágskattaríki eru t.d. ríki innan Evrópusambandsins sem hv. þingmaður talar mjög fyrir að við skulum ganga í. Ísland gæti meira að segja í einstökum tilvikum, eins og ég benti hér á, í einstökum greinum, einstökum fyrirtækjum, verið lágskattaríki í skilningi skattalaga, alveg eins og Noregur er í einstökum tilfellum talinn lágskattaríki, Holland er talið lágskattaríki. Þannig að breytingartillaga hv. þingmanns hefði ekki komið í veg fyrir það að einhverjir aðilar sem nýta sér skattaskjól og svíkjast undan að greiða lögbundnar skyldur hefðu sótt um stuðningslán. Við erum bara að segja að ótakmörkuð skattskylda og upplýsingar um að menn hafi greitt öll sín gjöld sem þeim ber að gera, hafi farið eftir íslenskum lögum í einu og öllu, og uppfylli þau ströngu skilyrði sem sett eru fyrir að fá þessi stuðningslán, (Forseti hringir.) er það sem ég tel nægilega tryggingu. En auðvitað þurfum við að átta okkur á því að það kunna einhverjir að reyna að svindla, (Forseti hringir.) brjóta íslensk lög, brjóta lögin sem við erum að samþykkja hér á eftir, alveg eins og þeir brjóta íslensk skattalög með því að nýta sér skattaskjól með þeim hætti sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur áhyggjur af.

(Forseti (SJS): Það má ekki svindla á ræðutímanum.)