150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu skýrar og þjóni tilætluðum árangri í þeim erfiðu efnahagslegu aðstæðum sem þjóðin er í. Það er jákvætt að veita minni fyrirtækjum lokunarstyrki og stuðningslán. Miðflokkurinn telur hins vegar að umfang lokunarstyrkja sé ekki nægilegt. Það hefði verið hægt að útvíkka það til fleiri fyrirtækja, t.d. í veitingarekstri, og jafnframt hefði verið skynsamlegt að hækka fjárhæðarhámarkið.

Hvað lokunarstyrkina varðar miðast þeir við fyrirtæki sem þurfa að sæta lokun af hálfu heilbrigðisyfirvalda samkvæmt auglýsingu. Við teljum sem sagt að það ætti að útvíkka það nánar og láta ná yfir fleiri fyrirtæki. Stuðningslánin eru einnig mikilvæg aðgerð. Við í Miðflokknum styðjum þá tillögu en töldum hins vegar að það hefði átt að hækka viðmiðunarmörkin sem var orðið við. Fram er komin breytingartillaga meiri hlutans sem gengur á þann veg. Við fögnum þeim breytingum, (Forseti hringir.) styðjum þetta mál og sýnum þar með ábyrgð í stjórnarandstöðunni. Við vonum að stjórnarliðar styðji jafnframt tillögur minni hlutans.