150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég styð þessi frumvörp og tel þau hafa tekið mjög jákvæðum breytingum í meðförum nefndarinnar. Við í Viðreisn höfum lagt á það áherslu að fljótt og hratt sé komið til móts við erfiðleika fyrirtækja, m.a. vegna lögbundinnar lokunar tiltekinna fyrirtækja. Þetta eru mestmegnis lítil fyrirtæki og meðalstór og þess vegna skipta lokunarstyrkir og stuðningslán mjög miklu máli. Við þurfum að fá fjármagnið strax inn í fyrirtækin til að vinna með þeim. Við þurfum að halda atvinnulífinu gangandi meðan á þessari baráttu gegn veirunni stendur.

Mér finnst það að mörgu leyti jákvætt sem maður skynjar, að fyrirtæki hafi séð að sér. Þau eru núna að átta sig á samfélagslegri ábyrgð sinni á þessum tímum og það þýðir að allir þurfa að vera meðvitaðir um að ekki er hægt að ganga í opinbera sjóði án þess að spyrja sig þeirrar spurningar hvað fylgi þeim réttindum. Við þurfum öll að standa undir því að vera samfélagslega ábyrg. Þetta gildir jafnt um fólk sem fyrirtæki.