150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við jafnaðarmenn höfum ætíð barist gegn hvers konar skattundanskotum og það ræður okkar för. Samfylkingin styður auðvitað megininntak þessa frumvarps. Í nefndaráliti meiri hlutans er því haldið fram að nægilegt sé að gera þá kröfu að einstaklingar eða fyrirtæki sem njóta stuðnings úr ríkissjóði hafi fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Þetta er ekki rétt eins og bent hefur verið á og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt sig í framkróka við að sannfæra þingheim um. Þetta á við um alla sem stunda starfsemi á landinu og okkur er haldið í þokunni.

Um þetta gilda skýr ákvæði. Við mótmælum því hins vegar harðlega að þeir sem hafa tengsl við skattaskjól og aflandssvæði séu ekki útilokaðir frá stuðningi ríkisins og að þar séu ekki dregnar mjög skýrar línur. Það er hægt. Tilgangur þess að leita í skattaskjól á lágskattasvæði er bara einn einasti, skattundanskot og skattsniðganga.