150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins á mál þetta rætur sínar að rekja til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu sem lögð var fram af þingflokki Pírata ásamt fulltrúum úr öllum flokkum á 143. löggjafarþingi. Tillagan var samþykkt 16. maí 2014 og send ríkisstjórninni. Þingsályktunin fól ríkisstjórninni það hlutverk að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnarmiðaðra og mannúðlegra úrræða á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Heilbrigðisráðherra var falið að skipa starfshóp í því skyni vinna að mótun stefnunnar og verkefni starfshópsins var þríþætt:

Í fyrsta lagi að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka mætti viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf.

Í öðru lagi að líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu.

Í þriðja lagi að skapa heildstæða stefnu sem legði höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda sem dragi úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því að stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.

Greinargerð þingsályktunartillögunnar hófst á tilvitnun í Kofi Annan, sem mig langar að endurtaka, með leyfi forseta:

„Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“

Samþykkt þessarar þingsályktunartillögu 2014 markaði ákveðin þáttaskil í stefnumótun stjórnvalda gagnvart því samfélagslega vandamáli sem felst í misnotkun vímuefna. Allt frá því að stjórnvöld byrjuðu fyrst að taka eftir því að hér á landi kynni neysla vímuefna að vera nokkuð útbreidd hefur stefnumótun byggt á því að refsa skuli fólki fyrir alla meðferð efnanna, hvort sem þau eru til eigin neyslu eða til sölu og dreifingar. Það sést líka á því að lög um ávana- og fíkniefni hafa aldrei farið í heildarendurskoðun. Í grunninn erum við að miklu leyti enn þá að framfylgja sömu stefnu og hér var sett á fót árið 1974, en í kjölfar síendurtekinna, misheppnaðra herferða lögreglu og stjórnvalda á hendur vímuefnaneyslu og vímuefnaneytendum fór almenningsálit hér á landi að breytast og fólk fór að komast á þá skoðun að kannski væri réttara að hjálpa fólki í vanda frekar en að refsa því.

Það var þá sem þingsályktunartillaga þingflokks Pírata og allra annarra flokka á þingi var lögð fram og síðan samþykkt samhljóða með stuðningi allra flokka. Þess vegna er samþykkt hennar svo mikilvæg. Hún markar nefnilega byrjunina á mikilvægri og víðtækri stefnubreytingu stjórnvalda.

Eins og fram kemur í greinargerð þess máls sem við ræðum nú, sem er frumvarp um neyslurými, var það fyrst lagt fram á 149. löggjafarþingi, en í ljósi athugasemda sem velferðarnefnd bárust við vinnslu málsins frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara var málinu vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Í áliti velferðarnefndar á þeim tíma kom fram, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar kom einnig fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun.“

Í greinargerð frumvarpsins er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem langt eru leiddir í fíkn og eiga litla von um að hætta neyslu sinni. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjafinn gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo þeim verði ekki gerð refsing vegna sjúkdómsins. Beinir nefndin því til heilbrigðismála að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.

Undir þetta álit skrifa fulltrúar allra flokka í velferðarnefnd.

Frumvarp um neyslurými afglæpavæðir vörslu og meðferð neysluskammta vímuefna í æð á tilteknu svæði. En það er samt engin leið að komast á þetta tiltekna svæði án þess að brjóta lög. Lögreglan hefur að vísu sagst ætla að líta undan við það lögbrot, en við erum samt að setja hér lög sem gera beinlínis ráð fyrir lögbroti.

Forseti. Þótt ég sé hér að benda á gallana í þessu frumvarpi er þetta samt gott mál og ég fagna því. Mig langar til að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir framsýnina og fyrir hugrekkið að leggja þetta mál fram því að þetta er mikilvægt skref á þeirri vegferð sem ég vona og tel að við séum á, sem er að afglæpavæða alveg.

Þetta frumvarp er gott mál og ég styð það fullkomlega á meðan löggjafinn er ekki til í að ganga lengra. Þess vegna styð ég það núna. Það sem ég á erfitt með er að hægt væri að koma í veg fyrir þetta lögbrot með því að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna alfarið alls staðar og þannig tryggja vernd mannréttinda allra þeirra sem neyta vímuefna frekar en einungis lítils hóps sem bundinn er við tiltekna staðsetningu.

Í greinargerð frumvarps um neyslurými þar sem fjallað er um tilefni og nauðsyn lagasetningar, kemur fram, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur hugmyndafræðin um skaðaminnkun þróast og orðið útbreiddari. Líkt og kom fram í skýrslu heilbrigðisráðherra, um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum neyslu ávana- og fíkniefna, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild, ríkti samstaða um það innan starfshópsins sem vann skýrsluna að líta ætti á vanda neytenda ávana- og fíkniefna í íslensku samfélagi sem heilbrigðisvandamál fremur en viðfangsefni lögreglu og refsivörslukerfisins, að neytendur í vanda væru fyrst og fremst sjúklingar en ekki afbrotamenn.“

Frumvarpið sem við ræðum hér nær ekki alfarið utan um það markmið að líta á vanda neytanda ávana- og fíkniefna í íslensku samfélagi sem heilbrigðisvandamál fremur en viðfangsefni lögreglu og refsivörslukerfisins, alla vega ekki að fullu, ekki hvað viðkemur öllum neytendum.

Forseti. Nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni þar sem lagt er til að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Þetta frumvarp lagði ég fram og er frumvarp Pírata en með samþykkt þess yrði öll sú háttsemi sem neytendur vímuefna kunna að viðhafa felld úr lögunum og refsileysi neytenda vímuefna þannig tryggt. Frumvarpið er flutt af þingmönnum úr fimm flokkum af átta ásamt þingmanni utan flokka. Nefndin hefur fengið til sín gesti og er nefndarálit með breytingartillögum tilbúið þar sem tekið er á þeirri gagnrýni sem komið hefur fram í umsögnum við það mál og einnig út frá samtali sem hefur átt sér stað innan nefndarinnar. Nefndarálitið hefur verið kynnt fyrir nefndinni. Er því ekkert því til fyrirstöðu að nefndin standi með ályktunum sínum og afgreiði það mál hratt og vel í kjölfar samþykktar þess máls sem við ræðum hér þannig að við getum tryggt raunverulega skaðaminnkun og raunverulega vernd þessara hópa og tryggt að markmið þessa frumvarps náist að fullu.