150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að byrja á að spyrja hv. þingmann aðeins til baka hvort hann átti sig á því hvað hann er að nota gildishlaðin orð þegar hann er að ræða þessi mál og hvort það myndi ekki hjálpa okkur að nálgast þessa umræðu með aðeins opnari hug. Þá vil ég meina t.d. að það að tala um þetta úrræði, að setja upp neyslurými eða tala um afglæpavæðingu, þá sé á einhvern hátt verið að viðurkenna neyslu. Það snýst alls ekki um það. Þetta snýst um að viðurkenna að þeir sem eiga við erfiðleika að stríða þegar kemur að vímuefnavanda, að við eigum ekki að refsa þeim heldur eigum við eigum að hjálpa þeim, það snýst um það. Við erum að viðurkenna að þetta er heilbrigðisvandamál, þetta eru mjög viðkvæmir einstaklingar sem þarfnast aðstoðar en ekki refsingar. Um það snýst þetta. Eins og staðan er í dag er þessum einstaklingum refsað, þeir eru jaðarsettir. Við vitum það bara út frá öllum rannsóknum núna og þeirri þekkingu sem við höfum í dag að þegar við refsum jaðarsettum einstaklingum sem eiga við vímuefnavanda að stríða þá erum við að auka vandamálið. Við erum að dýpka vandamál þeirra og við erum að gera þeim erfiðara fyrir að ná bata.

En ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni að við eigum auðvitað að setja meiri fjármuni í það að hjálpa fólki í neyslu. Ég styð það fullkomlega en þá verða að vera fjölbreytt úrræði í boði vegna þess að það er ekki hægt að troða öllum í einn kassa, það er ekki sama úrræðið sem hjálpar öllum. Við erum öll mismunandi og við erum öll að díla við mismunandi vandamál þannig að úrræðin þurfa að vera fjölbreytt.

Varðandi það hvort ætti að spyrja um almenningsálit á þessari stefnubreytingu þá finnst mér mikilvægt að fram komi að þessi stefnubreyting út af fyrir sig (Forseti hringir.) eru mannréttindi. Þetta er mannréttindamál. Eins og staðan er núna erum við að jaðarsetja og (Forseti hringir.) refsa einstaklingum og við erum að neita þeim um aðstoð sem aðrir í samfélaginu hafa rétt á (Forseti hringir.) vegna þess að þeir eru vímuefnaneytendur og það er brot á mannréttindum þeirra. Við erum að laga það.