150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður meinar með því að ég sé að nota gildishlaðin orð, ég var einfaldlega að vitna í það sem ég las mér til um reynslu erlendis frá þegar kemur t.d. að staðsetningu þessara úrræða. Ég nefndi það sérstaklega í andsvari mínu að ég hefði svo sannarlega viljað sjá að þessum einstaklingum yrði hjálpað með öllum tiltækum ráðum og þá til þess að reyna að falla frá fíkniefnaneyslu. Það finnst mér afar mikilvægt og styð allar tillögur í þeim efnum.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að þetta úrræði gæti orðið til þess að þeir sem hafa t.d. verið í meðferðarúrræðum og eru að feta sig á beinu brautina, skref fyrir skref, sjái kannski einhverjar freistingar í því að þarna sé aðgengið orðið auðveldara og þá náttúrlega löglegt, hvort það geti ekki haft neikvæð áhrif.

Síðan segir í frumvarpinu að heimilt sé að gera samkomulag um að lögregla grípi ekki til aðgerða gegn notendum neyslurýmis á tilteknu svæði í kringum húsnæði neyslurýmis. Hvað þýðir þetta, hv. þingmaður? Þýðir þetta það að fíkniefnasala verður heimil á tilteknu svæði í kringum neyslurýmið? Er ekki hætta á því að fíkniefnasalar gætu farið að nálgast þessi rými og þar með komnir í eitthvert skjól gagnvart lögreglu? Ég skil þetta ekki öðruvísi. Það stendur hérna, „gegn notendum neyslurýmis á tilteknu svæði í kringum húsnæði neyslurýmis.“ Ég skil þetta þannig að það sé í raun og veru refsileysi í kringum þetta húsnæði. Og þá veltir maður fyrir sér: Eru ekki einhverjir misgjörðamenn sem selja fíkniefni sem reyna að nýta sér það? Ef hv. þingmaður gæti kannski komið aðeins inn á það.