150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Þetta frumvarp um neyslurými heimilar sem sagt vörslu vímuefna í æð á tilteknu svæði. Það er ekki verið að heimila sölu, það er einungis verið að heimila neysluskammta, vörslu á neysluskömmtum fyrir vímuefni í æð á tilteknu svæði. Ástæðan fyrir því er að verið er að reyna að grípa utan um einn viðkvæmasta hóp vímuefnaneytenda á landinu, í samfélaginu. Þegar við tölum um að verið sé að auka aðgengi — þegar þú ert orðinn langt leiddur vímuefnaneytandi og neytir vímuefna í æð, þá munt þú leita uppi þau vímuefni sem þú þarft, hvort sem þau eru aðgengileg eða ekki. Þetta úrræði er ekki til þess fallið að auka aðgengi. Þetta þýðir bara að þeir aðilar sem nota vímuefni í æð, hvort sem þeir geta gert það á öruggan hátt eða ekki, eru að fara að gera það og ef þeir hafa ekki öruggan stað til að gera það þá gera þeir það einhvers staðar þar sem þeir eru ekki öruggir og þá getur fólk dáið af ofskömmtum. Og enginn er til staðar til að aðstoða það. Þetta úrræði snýst um það. Það snýst um að fólk sem er að fara að neyta vímuefna í æð, hvort sem við viljum það eða ekki, hvort sem samfélagið samþykkir það eða ekki, gerir það. En við erum að búa til öruggt svæði þar sem við getum passað upp á þennan hóp og hjálpað honum. Reynslan annars staðar frá úr heiminum hefur sýnt okkur að þetta eykur líkurnar á því að þessir einstaklingar nái bata og hætti að neyta vímuefna í æð.