150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Maður finnur að hún brennur svo sannarlega fyrir þessu málefni og hefur gert frá því að hún tók sæti á þingi og örugglega löngu áður, hún hefur a.m.k. talað fyrir þessu lengi. Vegna þess að hv. þingmaður fór aðeins inn á afglæpavæðinguna og vegna þess að hv. þm. Birgir Þórarinsson fullyrti um reynsluna utan úr heimi — og þar sem ég veit að hv. þingmaður er um margt fróð um stöðuna úti í heimi, þó að stuttur tími sé til svara — langaði mig að heyra í stuttu máli hvort reynsla ríkja sem við getum borið okkur saman við, skulum við segja, sé jákvæð eða neikvæð gagnvart neyslurýmum og afglæpavæðingu.

Seinni spurning mín snýr að því hvernig hlutirnir eru í praxís hér. Maður veltir fyrir sér með þá sem starfa t.d. í löggæslu, í heilbrigðisstarfsemi eða með ungmennum, hvort þetta fólk sé mögulega að brúka það sem neyslurýmin og afglæpavæðingin boða, það sem er stefnan þar, í sínu daglega starfi þrátt fyrir að það sé í raun ekki löglegt í dag. Hefur hv. þingmaður orðið vör við eitthvað slíkt í allri þeirri umræðu sem á sér stað varðandi þessa hluti á Íslandi?