150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að mér finnst að almenningur eigi að fá að segja sitt álit. Hér er verið að gera grundvallarbreytingu, við áttum okkur algjörlega á því. Lýðræðið er virkjað með ýmsum hætti, t.d. hjá Reykjavíkurborg þar sem íbúar í ákveðnum hverfum geta kosið um ákveðnar framkvæmdir o.s.frv.

Íbúalýðræði — við höfum talað fyrir því. Miðflokkurinn hefur talað fyrir íbúalýðræði á sveitarstjórnarstiginu. Ég vil alls ekki útiloka það að ef reisa á neyslurými á ákveðnum stað eða í einhverju sveitarfélagi að íbúarnir hafi eitthvað um það að segja. Því fylgir væntanlega kynning og þeir sem eru fylgjandi þessum úrræðum geta þá sagt álit sitt og mælt með því og rökstutt það o.s.frv. Ég held að almenningur og íbúar séu almennt forvitnir um mál sem þetta og reynslan erlendis sýnir að menn eru ekki ánægðir með að hafa neyslurými í sínu nærumhverfi. Það er bara staðreynd, það er hægt að lesa sér til um það og það er reynslan erlendis. Þannig að mér finnst bara eðlilegt að almenningur geti sagt sína skoðun hvað þetta varðar. Þetta kemur til með að breyta heilmiklu. Það er bara þannig. Það er ákveðið rými í kringum neyslurými sem á í raun og veru að vera refsilaust samkvæmt frumvarpinu þannig að ég held að það sé alveg augljóst að hægt er að virkja lýðræðið til að fá fram vilja íbúanna hvað það varðar. Hv. þingmaður þekkir það náttúrlega mjög vel, sem er mikill talsmaður íbúalýðræðis, beins lýðræðis, þykist ég vita, þannig að það er bara mjög auðvelt í framkvæmd.