150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég er mikill áhugamaður um lýðræði og á ýmsar tillögur í þeim efnum. Stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að vilja kasta svona ákvörðunum frá sér eitthvert annað þegar þeir sjá fyrir sér að það verði málstað þeirra til framdráttar. Það er ekki lýðræði að mínu mati. Lýðræði kemur úr grasrótinni sem er meðal kjósendanna sjálfra. Ég hef ekki orðið var við nokkurn áhuga á að greiða atkvæði um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu eða íbúakosningu, ekki neinn. Ef hann kæmi hins vegar fram væri mikilvægt að slíkt mál færi eftir skýrum boðleiðum og reglum. Það er t.d. eitt sem við eigum ekki að greiða atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. hvort þessi eða hinn eigi að hafa málfrelsi eða ekki, eða hvort þessi eða hinn eigi að fá sanngjörn réttarhöld eða hvort það eigi að vera jafnræði fyrir lögum. Við greiðum ekki atkvæði um það vegna þess að það eru ákveðnar takmarkanir á því verkfæri.

Í ræðu hv. þingmanns og andsvörum heyrði ég ekkert um útfærsluna á þessari lýðræðishugsjón hans. Þess vegna óttast ég í fyrsta lagi að hún brjóti í bága við jafnræði fyrir lögum eða frelsi einstaklingsins, sem er ekki í lagi. Og hins vegar finnst mér sem áhugamanni um lýðræði á engan hátt augljóst yfir höfuð hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér þetta yrði útfært.