150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get svarað einni spurningu frá hv. þingmanni strax, þ.e. hvort foreldrum þeirra sem eru í fíkniefnum myndi hugnast þetta úrræði. Já, þeim myndi hugnast bæði úrræðin, að auka fræðslu og aðstoð og líka neyslurými, vegna þess að það er eitt sem er alveg garanterað við það úrræði; við tökum hér stór skref í því að taka yngstu einstaklingana úr skúmaskotum, úr ógeðslegum aðstæðum inn í aðstæður þar sem þeir fá hreinar nálar og þar sem hægt er að fylgjast með þeim. Ef þeir verða fyrir því að taka of stóran skammt þá er hægt að hjálpa, sem er kannski ekki hægt í dag. Því miður veit ég um unga einstaklinga sem hefði verið hægt að hjálpa, þeir tóku bara of stóran skammt en enginn var til að hjálpa.

Síðan er annað sem mælir með því að gera þetta, þ.e. að við tökum sprautufíkla af götunni, að við tökum þá úr skúmaskotunum, af leiksvæðum barna, leikskólalóðum, þar sem nálarnar liggja. Fram kemur í frumvarpinu hvaða áhrif svona neyslurými hafa haft í Skyen í Kaupmannahöfn, reynslan sýnir að um leið og neyslurýmin komu þar hurfu 90% af nálum úr nærumhverfinu. Bara það eitt segir okkur, og ætti að segja hv. þingmanni, að við erum á réttri leið. Við verðum að hætta að vera einhverjir hamstrar inni í kassa, hlaupandi á hjóli og halda að við komumst þannig út úr kassanum. Við verðum að fara að hugsa þetta alveg upp á nýtt. Við erum að tala um veikt fólk.