150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki spurður að neinu hér, þetta var bara ræða hjá hv. þingmanni þannig að ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara henni. (Gripið fram í.) Ég var búinn að segja það í ræðu minni að ég teldi nauðsynlegt að auka fé til meðferðarúrræða. Ég hef sagt það nokkrum sinnum og ég sakna þess í umræðunni að ekki skuli hafa legið fyrir einhvers konar skýrsla eða greining á því hvort þeir fjármunir sem á að fara að setja í þessi neyslurými gætu nýst betur í meðferðarúrræðum og hvort ekki sé hægt að útvíkka meðferðarúrræðin.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega að verið sé að sækja fólk í einhver skúmaskot o.s.frv. sem eru út af fyrir sig mjög dapurlegar aðstæður og allt það, ég tek alveg heils hugar undir það. En er þá ekki hægt að útvíkka einhvers konar aðstoð tengda því að koma þessu fólki í meðferðarúrræði? Ég spyr bara, ég meina, þetta er eitthvað sem mér finnst að ætti að skoða. Verðum við ekki líka að taka alvarlega athugasemdir frá þeim sem þekkja vel til í þessum málaflokki, og hefur komið hér fram, að þetta úrræði geti hugsanlega gert að verkum að neysla muni aukast? Það kemur frá fagaðilum sem hafa sagt þetta. Er þetta ekki eitthvað sem við verðum líka aðeins að horfa í? Ég held það. Vegna þess að þarna er verið að auka aðgengið, það verður auðveldara og það er orðið refsilaust. Og hvað með þá sem eru t.d. að feta sín spor eftir að hafa verið í meðferð og eru viðkvæmir fyrir o.s.frv.? Þarna sjá þeir kannski auðvelda leið til að komast aftur inn í þessa ógæfu, það er hugsanlegt líka.