150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við í 2. umr. um afar mikilvægt mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, er varðar neyslurými. Já, það kann að vera rétt sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni að nefndarálitið sem skilað er inn hér, og er auðvitað lögskýringargagn, er heldur rýrt. Það hefði farið betur á því að hafa það fyllra. En þá er gott að hér eigi sér stað þingfundur þar sem hægt er að fylla upp í holurnar, ef svo má segja. Það er fjölmargt sem ekki er minnst á í nefndarálitinu og þá aðallega það sem ekki kom fram, af því að maður fjallar yfirleitt um það í nefndaráliti sem kemur fram en er ekki að segja frá því sem ekki kemur fram, annars yrðu nefndarálit ansi löng. Það kemur t.d. ekki fram í nefndarálitinu að lögreglan og ríkissaksóknari hafi ekki gert athugasemdir en það hefur komið kirfilega fram úr þessum ræðustól að lögreglan og ríkissaksóknari töldu enga ástæðu til þess að gera athugasemdir við þetta frumvarp. Þeir höfðu hins vegar gert athugasemdir við eldri frumvörp, fyrri frumvörp, en búið var að taka tillit til þeirra athugasemda í þessu frumvarpi.

Við erum að fjalla um skaðaminnkun. Það er það sem þetta snýst um, af því að fíkn er sjúkdómur og við þurfum að mæta þeim sjúkdómi eins og við mætum öðrum sjúkdómum. Ég hef komið inn á það áður að þegar um er að ræða sjúkdóma reynist mannkyninu erfitt að útrýma þeim með öllu. En við reynum eins og við getum að finna lækningar við sjúkdómum og þegar lækningin til skemmri eða lengri tíma virðist ekki ætla að bera árangur þá reynum við a.m.k. að lina þjáningar þess sjúka. Og það er nákvæmlega það sem verið er að gera í þessu máli.

Skaðaminnkun er hugmyndafræði sem gengur út á það að reyna að sýna þeim sem glíma við fíkniefnasjúkdóminn mannúðlega meðferð, einhvers konar líkn, og mæta þeim einstaklingum og auðvitað gera tilraun til þess að mynda eitthvert samband við einstaklinga sem mögulega má leiða til þess að undirrót sjúkdómsins, sem er hið andlega mein sem byggir á vantrausti, sem byggir á ýmsu sem einstaklingurinn hefur ferðast með í gegnum lífið, að mögulega sé hægt að vinna á því með því að sýna einstaklingnum virðingu í stað útskúfunar. Það er það sem skaðaminnkun gengur út á.

Rauði kross Íslands, sem er alþjóðleg mannréttindasamtök, hefur rekið nokkur skaðaminnkunarúrræði á undanförnum árum, í fyrsta lagi Konukot, svo Frú Ragnheiði í Reykjavík, sem er bíll sem þjónustar fíkla, og svo Ungfrú Ragnheiði á Akureyri, sem er sambærilegur bíll. Skaðaminnkun vísar til stefnu eða verkefna, verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar bæði löglegra og ólöglegra vímuefna. Skaðaminnkun gagnvart fólki sem notar vímuefni og fjölskyldum þeirra, nærsamfélaginu öllu og samfélaginu öllu, þetta er skaðaminnkun fyrir okkur öll. Sá einstaklingur sem mætir ekki fyrirlitningu, útskúfun og refsingum er ólíklegri til að stunda andfélagslega hegðun með ýmsum afbrotum eða slíku. Það sem einkennir leiðina skaðaminnkun er áherslan á að fyrirbyggja skaða fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Þannig hefur skaðaminnkun skírskotun til lýðheilsu og mannréttinda frekar en heilsufarslega skírskotun. Það er skaðaminnkunin. Þegar við horfum á neyslurýmin og hvernig þau eru hugsuð þá er það út frá þessum fræðum um skaðaminnkun en hefur til viðbótar skírskotun inn í heilbrigðiskerfið, af því að þar starfar heilbrigðisstarfsmaður, félagslega kerfið, af því að þar er talað um að kunni að verða félagsfræðingur, og ýmislegt annað, jafnvel inn í réttarvörslukerfið, af því að líka er talað um að viðkomandi geti mögulega haft aðgang að einhvers konar lögfræðiaðstoð. Þeir sem eru komnir þetta djúpt inn í neysluna, inn í veikindi sín, hafa oft verið að glíma við ýmsa erfiðleika á því sviði.

Aðeins var komið inn á sölu fíkniefna áðan, hvort við værum, af því að það mætti vera með fíkniefni, neysluskammta, á þessu svæði, að opna fyrir það að þarna gengju fíkniefni kaupum og sölum. Svo er auðvitað alls ekki. Þetta er algjör misskilningur hjá hv. þingmanni sem hélt þessu fram vegna þess að sala fíkniefna verður eftir sem áður alveg jafn ólögleg. Það er ólöglegt að selja fíkniefni og það verður það þarna inni líka. Sala fíkniefna má ekki eiga sér stað inni í neyslurými. Þú mátt hins vegar hafa neysluskammt með þér til þess að neyta inni í rýminu, en þú mátti ekki selja neysluskammtana eða selja fíkniefni á staðnum. Það er ólöglegt og verður það áfram. Hér er um að ræða heimildarákvæði í lögum fyrir sveitarfélög til að búa til rými fyrir sjúklinga sem neyta fíkniefna. Verið er að búa til rými þar sem starfsfólk sem starfar þarna getur verið öruggt um að það sé ekki að brjóta lög. Eins og kom fram áðan getur það verið ansi flókið fyrir starfsmann sem er að vinna í þessu umhverfi að mæta til vinnu og eiga það á hættu að vera sóttur til saka fyrir að aðstoða fíkil. Og enn og aftur, ég þreytist ekki á því að segja það: Fíkn er sjúkdómur, ekki glæpur.

Varðandi úrræðin þá held ég að við þurfum að hugsa þau svolítið upp á nýtt, þau úrræði sem við erum með fyrir fíkla og aðra sem misnota vímuefni. Við rekum hátæknisjúkrahús á Vogi sem er með sjúklinga í innlögn. Svo erum við líka með sjálfstæð félagasamtök sem reka meðferðarheimili, en það virðist vera sem það sé sáralítil heildstæð stefna í meðferðarúrræðum á Íslandi. Það er of langur biðlisti eftir innlögn en svo eru göngudeildir og göngudeildirnar virðast vera þær sem fá fyrst að fjúka þegar þrengir að. Við höfum t.d. séð það á Akureyri þar sem því var hótað um leið og samdráttur varð að göngudeildinni fyrir norðan, sem á að þjónusta risastórt svæði, yrði lokað með hraði.

Úrræðin eru þannig að við viljum auðvitað aðstoða þá sem vilja hætta að neyta vímuefna, en eitt útilokar ekki annað. Það getur verið að sjúklingurinn sé það langt leiddur að hann annaðhvort hafi ekki áhuga á að hætta neyslu eða hreinlega bara treysti sér ekki í það. Á þessum stað eru fjölmargir einstaklingar sem treysta ekki heilbrigðiskerfinu og treysta ekki félagslega kerfinu og treysta alls ekki lögreglunni. Það er líka það sem skiptir máli inn í þessi úrræði sem neyslurýmin geta orðið, að það sé byggt upp traust. Oftar en ekki hefur einstaklingur sem er þetta langt leiddur lokað öllum dyrum í kerfinu hér og þar og hefur misst traust á allt kerfið. Ég held að þetta traust og þessi viðurkenning á manneskjunni og að henni sé mætt á hennar forsendum án dómhörku, án fordóma og af mannúð, muni koma okkur ansi langt í baráttunni gegn neyslunni. Og ég held ekkert um það heldur er þess fullviss. Ég hef verið að fylgjast með því sem hefur verið að gerast t.d. hjá Frú Ragnheiði, hjá Rauða krossinum og það er alveg magnað starf sem á sér stað þar af því að kærleikurinn fyrir manneskjunni er alltumlykjandi. Þegar þú nærð einhvern veginn að byggja upp traust eru meiri líkur á að þú getir orðað það við viðkomandi að hægt sé að leita sér aðstoðar við að komast út úr neyslunni.

Þó að vandi sé falinn þá er hann til staðar. Það að útbúa neyslurými býr ekki til vandann. Við vitum frekar af honum af því að við sjáum hann en hann er samt þarna, hann er falinn af því að neyslunni fylgir mikil skömm. Við verðum bara að viðurkenna að í Reykjavík og í öðrum bæjarfélögum um landið búa fíklar. Þeim finnst gjarnan ágætt að vera nálægt öðrum fíklum til ná einhverri samsömun, ná einhverjum tengslum, en það að við hér við Austurvöll sjáum þá ekki í neyslurýmunum þýðir ekki að þeir séu ekki til staðar. Við vitum alveg að þeir eru til staðar. Vandinn er til staðar og við þurfum einhvern veginn að grípa hann.

Varðandi það að spyrja almenning þá hefur þetta frumvarp verið til meðferðar á Alþingi í allan vetur og oft áður og hefur verið til umræðu og það er hverjum sem er, hverjum sem það vill, heimilt að senda inn umsagnir. En þó að ég aðhyllist mjög íbúalýðræði þá virðist það samt brenna svolítið við hjá okkur að við erum tilbúin í nánast hvað sem er nema bara í okkar hverfi. Þá ætla ég nú ekki að fara að tala um þann hóp sem er hvað mest fordæmdur í samfélaginu heldur jafnvel bara þá sem eru að glíma við geðrænar áskoranir. Jafnvel þeir einstaklingar sem glíma við geðrænar áskoranir þurfa að þola það að heilu hverfin fari á hliðina út af sambýli sem ætlað er þeim hópum, af því að það má alls ekki fá slíka einstaklinga í mitt hverfi. Þetta er kallað „nimbyism“. Ég veit ekki hvað þetta heitir á íslensku.

Ef maður veltir fyrir sér hvernig við sem samfélag getum risið upp og útskúfað þeim sem glíma við geðrænar áskoranir af því að við viljum ekki að þau búi í hverfinu okkar, þá getum við rétt ímyndað okkur hvernig við eigum eftir að hegða okkur ef fíklarnir eiga að vera einhvers staðar nálægt okkur. Og við höfum svo sem séð það. Ég veit því ekki alveg hvernig við eigum að fara að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta, hvort sú þjóðaratkvæðagreiðsla myndi á endanum snúast um að útrýma þessum hópi. Það ætla ég að vona ekki af því að þar á meðal er frábært fólk, eins og í öllum hópum.

Viðhorf aðstandenda til þessa úrræðis hef ég metið sem svo að sé mjög jákvætt vegna þess að þetta úrræði hvetur ekki til neyslu heldur þykir aðstandendum gott að vita til þess að afkvæmi þeirra, maki, systkini, foreldri geti a.m.k. leitað eitthvert í leit að aðstoð og í leit að smámannúð. Það að vera aðstandandi fíkils er mjög erfitt, reynir mikið á og það er ekki síst erfið sú staða að vita af fjölskyldumeðlimi eða nánum vini úti, að viðkomandi eigi ekki rétt á þjónustu, eigi ekki rétt á skjóli og hafi í raun lokað öllum dyrum þegar kemur að úrræðum og trausti til heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins. Við erum ekki að auka aðgengi að fíkniefnum, síður en svo. Við erum að auka mannúð til þess hóps sem hefur í raun mátt þola hvað mesta útskúfun hér á landi.