150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, neyslurými, sem hefur verið, eins og komið hefur fram í mörgum ræðum, til meðferðar í velferðarnefnd. Frá því að ég kom inn á þing hef ég verið trúr sannfæringu minni og hef greitt atkvæði á móti öllum lögum sem auka aðgengi að eiturlyfjum eða víni. Ég geri ekki ráð fyrir að þær ræður sem hér hafa verið fluttar eða eiga eftir að verða fluttar muni breyta neinu með það. Ég held að það sé líka nokkuð ljóst, virðulegur forseti, að ég mun ekki eyða tíma þingsins í að endurtaka það sem hér hefur verið sagt. Margt af því er mjög gott og ég vil taka undir nær allt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði áðan og því alger óþarfi að endurtaka það. Margir halda að ég sé að taka þessa ákvörðun að vanhugsuðu máli eða hafi tekið hana bara rétt eftir að ég kom inn á þing. Það er ekki þannig. Ég held ég hafi verið rétt rúmlega tvítugur þegar ég sat í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna og það þótti tíðindum sæta að þar var einn maður úr Vestmannaeyjum sem andmælti því að stjórnin vildi selja brennivín í búðum. Það hefur ekkert breyst síðan þá, þó að ég hafi reyndar ekkert verið að spýta því út úr mér með brennivínið á þeim tíma. Þessi afstaða mín er ekkert ný og þess vegna breytist hún auðvitað ekki.

Ég vil taka undir það sem hér var sagt um starfsfólk Frú Ragnheiðar. Það fólk hefur oft komið til okkar í velferðarnefnd og maður áttar sig stundum á því heima hjá sér þegar maður horfir á þetta fólk í viðtali í sjónvarpinu að þarna eru góðkunningjar manns á ferð, sem maður hitti í vinnunni. Ég verð að viðurkenna að ég ber mikla virðingu fyrir þeirri umhyggju og kærleika sem það sýnir skjólstæðingum sínum. Það er algerlega á hreinu. Það er algerlega til fyrirmyndar hvernig það fólk, í vinnutíma sínum og frítíma, hefur annast þetta fólk. Það liggur alveg fyrir, og það vita þeir sem eru í velferðarnefnd og auðvitað margir fleiri, að það er ákveðinn hópur einstaklinga sem virkilega þarf á slíkri aðstoð og aðstöðu að halda. Það hefur alveg legið fyrir. Mér hefði hins vegar fundist betri bragur á því að þetta frumvarp frá ráðherranum hefði gert ráð fyrir því að þessi sérstaki hópur væri aðstoðaður í staðinn fyrir að hafa neyslurými sem er algjörlega opið fyrir alla. Í því felst mikil hætta. Meðferðarfulltrúar og sérfræðingar hafa sagt mér í þeim samtölum sem ég hef átt við þá um þessi mál að ef ungt fólk sem er að hefja neyslu kemst í þá aðstöðu, í skjól til að sprauta sig og neyta efnanna, muni það hraða mjög falli þeirra í neyslunni. Þau munu mikið fyrr verði fíkninni algerlega bráð. Það fer ekki hjá því að við sem höfum fylgst með þessum heimi og tekið þátt í því að aðstoða fólk á ýmsan hátt upplifum þá ömurlegu hörmung sem margir eru komnir í og ætla ég þá ekki að tala um stöðu foreldra og nákominna ættingja sem líða fyrir slíka stöðu.

Það er alveg merkilegt af okkur þingmönnum að í hvert skipti sem frumvarp kemur fram um aukið aðgengi að víni eða eiturlyfjum, eins og er verið að gera hér og fleiri frumvörp eru á leiðinni, þá komum við aldrei með leiðir á móti til að taka á vandanum sem þetta leiðir af sér, sem er aukin neysla. Það liggur alveg fyrir, hvort sem það er eiturlyf, vín, sælgæti eða matur, að aukið aðgengi þýðir aukna neyslu. Við getum ekkert borið á móti því. Það er því mjög mikilvægt að stemma stigu við því hverjir geta nýtt sér þessi neyslurými. Ég viðurkenni að það er hópur þarna úti sem þarf á slíkri aðstoð að halda en áhyggjur mínar aukast verulega þegar fólk vill ganga mun lengra á þeirri leið heldur en þetta frumvarp gerir. En ég ætla ekki að ræða það núna vegna þess að það er nógu sorglegt mál, svo maður fari ekki að bæta því ofan á þetta mál. Það að fólk skuli brenna fyrir því er afar einkennilegt.

Við höfum rætt þetta mál á fleiri, fleiri fundum í velferðarnefnd og það hafa mörg sjónarmið komið fram og góðar ráðleggingar sem er algerlega skautað fram hjá í þessu frumvarpi. Ég held við þurfum að taka höndum saman um að auka fræðslu og áróður gegn vímuefnum, eiturlyfjum og sígarettum. Við höfum séð hvaða árangri við höfum náð með tóbaksnotkun eftir að farið var í að koma þeim úr augsýn í verslunum. Það hefur breytt miklu. Ég held að Ísland sé talið dæmi um þjóð þar sem sígarettureykingar fari minnkandi og eru mjög litlar á sama tíma og neysla eiturlyfja eykst. Það er líka mikið áhyggjuefni. Ég hefði viljað heyra það í þessari umræðu að við vildum styrkja SÁÁ, að við vildum styrkja Hlaðgerðarkot og að við vildum styrkja Krýsuvík. Ég man ekki eftir neinu hausti hér í fjárlagavinnunni þar sem fulltrúar þessara samtaka hafi ekki hringt í okkur þingmenn og beðið okkur um aðstoð, af því að ekki væri nóg gert. Ég hugsa að ég fari ekki fjarri með það þegar ég segi að það séu 1.000 manns á biðlistum eftir meðferð hjá þessum stofnunum. 1.000 manns, það lætur mjög nærri að svo sé. Hugsið ykkur glötuð verðmæti á bak við allt það fólk, á bak við alla þá einstaklinga. Það er ekki hlutverk okkar í þinginu að auka og stækka þann hóp. Við eigum að gera allt til þess að minnka hann. Við eigum að gera allt til að hjálpa honum, því að vissulega er þetta fólk veikt og ég hef aldrei efast um það eina einustu mínútu. En það þarf að bera ábyrgð á sjálfu sér eins og við hin. Við verðum að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Það er skylda hvers og eins að gera það.

Virðulegur forseti. Mér finnst sorglegt að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og ég mun ekki styðja það.