150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:02]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég er með eina einfalda spurningu sem snýr að því að hv. þingmaður talaði um að afstaða hans sé ekki ný, en hún er samt ný fyrir mér vegna þess að í 4. júní 2019 skrifaði hv. þm. Ásmundur Friðriksson undir nefndarálit þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar kom einnig fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.“

Undir nefndarálitið skrifar hv. þingmaður. Ég er forvitin að vita hvað hafi breyst á þeim tíma, á þessu tæpa ári sem liðið er síðan hv. þingmaður skrifaði undir.