150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:07]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti, ég þakka fyrirspurnina, ég veit ekki hvort það var einhver sérstök fyrirspurn í þessu til mín (HHG: Andsvar.) en ég skammast mín ekki fyrir að vita ekki mikið um sölu á eiturlyfjum á Íslandi. En hér eru miklir sérfræðingar í því og ég held að það hljóti að vera að sölumennirnir eigi hvergi betri málsvara en hér inni í þinginu þegar verið er að tala um þetta og þeir munu ekki fá stuðning minn. Ég hef bara áhyggjur af vímuefnaneyslu unglinga og þeirra sem eiga um sárt að binda og tel að við þingmenn eigum að standa vörð um það að minnka neysluna með þeim aðgerðum sem færustu menn hafa bent okkur á. Við höfum verið að feta þá leið ágætlega og neyslurými í úthverfum borgarinnar munu ekki verða til þess að hjálpa unga fólkinu sem er að feta fyrstu sporin í eiturlyfjaneyslunni. En við þurfum vissulega að hjálpa þeim sem (Forseti hringir.) finna enga leið út úr þessu. Það sagði ég strax í upphafi.