150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson kvartaði yfir góli tveggja hv. þingmanna en það var hvorugur þeirra sem gólaði. Það var ég, virðulegi forseti, sem gólaði hér. Ég gólaði mjög málefnalega, og að mínu mati vel, um efnið, enda var hv. þingmaður stiginn niður úr pontu. Ég skil vel að þetta hafi farið fyrir brjóstið á honum, að ég hrópi upp orð, áróður, sem hann nefndi sjálfur í ræðu, en ég gerði það ekki til að grípa fram í fyrir honum og ég greip ekki fram í fyrir honum.

Hin ábendingin sem ég vil koma á framfæri er að þegar virðulegur forseti gerir athugasemdir við að þingmenn séu ekki að ræða það sem er á dagskrá eða til umræðu hverju sinni er hann óhjákvæmilega að fara inn á frekar hættulega braut og hún er sú að draga úr málfrelsi þingmanna. Það er sá staður þar sem þingmenn geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri um þau mál sem eru til umræðu. Það er alvanalegt, og vil ég meina að hér fari þingmenn út í þau málefni í víðum skilningi. Fyrir utan að það sem virðulegi forseti benti á var ekkert út fyrir efnið, það var hluti af málinu. (Forseti hringir.) Og jafnvel þótt svo hefði verið vil ég vara virðulegan forseta við því að ganga of langt í þessa átt.