150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, um neyslurými. Það verður að segjast eins og er að við förum um víðan völl í þessari umræðu og það er bara hið besta mál. En við umfjöllun í dag hef ég verið að velta fyrir mér hvað vanti inn í umræðuna, hvað við gleymum að taka inn í umræðuna til að skýra hvers vegna málið er komið á þennan stað. Neyslurýmið hefur valdið einhverjum hugarangri. En við skulum átta okkur á því að í frumvarpinu, sem var lagt fram á sínum tíma, það er svolítið síðan það kom inn, segir, með leyfi forseta, og þar er verið að tala um neyslurými í Danmörku:

„Árið 2012 var lögfest heimild í Danmörku til að reka neyslurými og eru nú fimm árum síðar starfrækt fimm neyslurými þar, í Árósum, Vejle, Óðinsvéum og tvö í Kaupmannahöfn, Skyen og H17 sem eru bæði staðsett í Vesterbro-hverfinu.

Í Skyen er boðið upp á rými bæði til að reykja efni og sprauta í æð. Árið 2017 voru skráðar þar um 400–800 komur á dag, þar af nota um 70% kókaín. Rýmið er opið allan sólarhringinn fyrir utan eina klukkustund sem er lokað til að þrífa. Skyen er á fjárstyrk frá ríkinu og þar starfa um 16–20 einstaklingar. Hjúkrunarfræðingur starfar á hverri vakt en einnig starfa þar félagsráðgjafar, félagsliðar, sjúkraliðar og starfsmenn sem hafa ekki sérfræðimenntun. Einu sinni í viku kemur þangað læknir og sjúkraþjálfari. Kosturinn við staðsetningu þessa neyslurýmis er að það er þar sem neyslan er mest. Ókosturinn við staðsetninguna er að neyslurýmið er í sama húsnæði og langtímadvalarúrræði fyrir heimilislausa sem getur skapað truflun og ónæði fyrir heimilismenn og nærumhverfi, en einnig dregið úr notkun kvenna á úrræðinu.“

Og svo það sem ég vitnaði í hér fyrr í dag:

„Eftir að Skyen opnaði fækkaði tilfellum þar sem nálabúnaður finnst á víðavangi um 90%.“

Þetta segir stóra sögu. Í framhaldi af því vil ég lesa, með leyfi forseta, orðrétt:

„Í báðum þessum neyslurýmum í Kaupmannahöfn gefst notendum kostur á að notast við dulnefni í staðinn fyrir sitt rétta nafn og á það reyndar við neyslurými í flestum löndum.

[...] Í samningnum er einnig kveðið á um húsreglur sem sveitarfélagið semur fyrir neyslurýmin. Þær byggja á reynslu frá öðrum löndum og hefur í Danmörku helst verið litið til reynslunnar í Vancouver í Kanada.“

Hvernig er þetta í Noregi? Í Noregi var byrjað á að setja upp neyslurými í tilraunaskyni árið 2004. Eingöngu var heimilt að neyta heróíns í neyslurýmum en nýlega var lögunum breytt og er frá 1. janúar 2019 heimilt að neyta annarra efna, bæði með sprautubúnaði og innöndun.

Hvað með önnur lönd? Með leyfi forseta, segir í áðurnefndu skjali:

„Fyrsta nálaskiptaþjónustan sem var komið á fót í heiminum var í Rotterdam í Hollandi árið 1981 af hagsmunasamtökum sem nefnast Junkiebond. Upphaflega var þjónustan veitt í undirheimum enda var hún ekki lögleg á þeim tíma.

Fyrsta neyslurýmið sem var opnað í heiminum var í Bern í Sviss árið 1986. Nú eru þar rekin 13 neyslurými í átta borgum, flestar í þýska hluta landsins.“

Af þessu má sjá að við erum ekki að finna upp hjólið. Við erum að koma á neyslurýmum, við erum að koma upp aðstöðu sem hefur verið reynd í mörgum löndum og gefist vel. Ef við tökum bara þá sem sendu inn nýjustu umsagnirnar við frumvarpið kemur fram að afstaða fanga er jákvæð. Einnig er umsögn frá bæjarstjórn Akureyrar jákvæð en ekki eins jákvæð umsögn frá IOGT, Bindindishreyfingunni. En allar aðrar umsagnir eru jákvæðar.

Það segir okkur líka að við erum komin á þann stað að við verðum að fara að gera eitthvað í þessum málum og hugsa út fyrir kassann. Þeir veiku einstaklingar sem þarna er verið að hjálpa til að komast í neyslurými eru í þeirri aðstöðu í dag að verða að vera, eins og komið hefur fram, í skúmaskotum, í niðurníddu húsnæði, eins og við höfum orðið vör við, á lóðum barnaheimila eða bara hvar sem pláss er að finna og svo líka, sem við gleymum oft, á heimilum. Ég geri mér grein fyrir því að vandamálið er orðið margfalt verra í dag en var þegar ég var lögreglumaður fyrir um 40 árum og samt var það slæmt þá. Þá voru einstaklingar að sprauta sig með fíkniefnum, gerðu það í heimahúsi þar sem börn voru til staðar, jafnvel fullorðnir einstaklingar; eldri borgarar og aðrir á heimilinu voru eiginlega fangar fíkniefnaneytandans á þessum stað. Það segir okkur líka að í þessu samhengi eigum við að sjá til þess að biðlistum eftir meðferð verði útrýmt. Meðferð á að vera alveg sjálfsagður hlutur og standa öllum til boða vegna þess að það hefur alltaf sýnt sig að um leið og við setjum upp biðlista erum við að spara aurinn og henda krónunni vegna þess að það skilar sér margfalt.

Við gleymum líka oft í þessu samhengi, þegar við erum að tala um fíkn, að það veit enginn, gerir enginn sér grein fyrir því, hvort hann er fíkill eða ekki fyrr en hann prófar. Það sem er kannski skelfilegast í þessu öllu saman er að við vitum og þekkjum til þess að fólk hefur orðið fíklar vegna þess eins að það hefur þurft að fá sterk verkjalyf vegna aðgerða eða vegna þess að það þarf að bíða eftir aðgerð. Það er auðvitað skelfileg staða að átta sig á því, þegar maður lendir t.d. á biðlista og þarf að taka sterk verkjalyf, er kannski kominn í 15–16 verkjalyfjatöflur og töflur við aukaverkunum vegna sterkra verkjalyfjataflna. Það er alveg út í hött og það er algerlega ólíðandi að fólk sé í þannig stöðu. Það gerir sér enginn grein fyrir því, fyrr en kannski ári seinna þegar viðkomandi reynir að hætta þessu gígantíska töfluáti, að þá er hann kannski orðinn fíkill og það er ekkert auðvelt. Þess vegna er ábyrgð samfélagsins líka mikil og við vitum ekkert hverjir verða fíklar. Við vitum að sumir eru verr staddir, detta fljótar ofan í þessa fíkn en aðrir og við höfum hingað til horft á það sem hálfgerða glæpamenn og að þeim beri að refsa, helst dæma og fangelsa fyrir að vera fíklar. En sagan segir okkur sem betur fer að sú nálgun er röng og hefur ekkert gert annað en að auka á vandann. En biðlistarnir eru langir og það er einhvern veginn eins og við getum ekki náð okkur út úr þeim hugsanagangi að festa okkur inni í þessum furðulega kassa, að það sé bara einhver ein leið sem við erum búin að reyna í áratugi sem sé sú rétta. Við rekum okkur alltaf á það. Einhverjir hafa bent á það að boð og bönn og hertar reglur muni gagnast okkur. En við vitum það af reynslunni, t.d. þegar sett var á áfengisbann, að það virkar ekki. Ég man að ég heyrði einhvern tímann slagorðið Fíknefnalaust Ísland árið 2000, það var eitt af því merkilegasta af öllu sem ég hef heyrt, hvort það var eitthvert kosningaloforð. Það var alveg stórfurðulegt loforð og gjörsamlega útilokað fyrir nokkurn mann að standa við það og reyna að koma því á. Það er alveg sama hvað við gerum með boð og bönn, það virkar ekki. Við sjáum hvernig fræðsla hefur skilað sér. Sjáum það í tóbakinu. Þar hefur fræðslan skilað sér alveg ótrúlega vel til barna og unglinga og stórlega hefur dregið úr reykingum. Síðan kom veipið. Þar þurfum við líka að taka okkur á og auka stórlega fræðslu vegna þess að ég tel að fræðslan muni pottþétt skila sér.

Eins og ég hef bent á er alveg ömurlegt til þess að vita að við erum að missa einstaklinga sem eru að sprauta sig við óviðunandi aðstæður. Það sem er kannski sorglegast í því er að það eru oft einstaklingar sem eru búnir að fara í meðferð, eru að reyna að koma sér út úr fíkninni og hafa kannski verið án efnanna í einhvern tíma, falla þá og sprauta sig en á einhvern óskiljanlegan hátt, sem sýnir kannski hversu óviðráðanleg þessi fíkn er, þá er eins og það blokkist fyrir það og þeir sprauta sig með nákvæmlega sama styrkleika af sama efninu og þeir voru á þegar þeir hættu. Það þýðir bara eitt í flestum tilvikum og það er dauði vegna þess að líkaminn kemur ekki til með að þola það eftir að hafa myndað þol — það segir sig að því oftar sem þú tekur efnið því meira þarftu og sem betur fer væri kannski í viðkomandi neyslurými hægt að bregðast við og bjarga þessum einstaklingum. Það væri meiri háttar ef það væri hægt og líka hitt að þarna er umhverfið þannig að þeir fá hreinar nálar og sprautur og þarna, eins og ég segi, verður heilbrigðisstarfsfólk sem mun geta aðstoðað.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en þetta er þannig mál að ég skrifa undir nefndarálitið og styð frumvarpið. Ég geri mér grein fyrir því að við verðum að breyta til og reyna að finna nýjar leiðir. Á sama tíma ber okkur líka skylda til að sjá til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda fái hana strax, þurfi ekki að bíða mánuði eða ár eftir þeirri hjálp. Það gætu verið einstaklingar í biðsal dauðans. Þarna er stutt á milli og þarna þarf að bregðast fljótt við. Ég vona innilega að þetta svæði og það neyslurými sem verður skapað þarna geri þessum einstaklingum auðveldara að leita sér hjálpar. Það verður þá hægt að grípa þá sem þar kom inn og biðja um hjálp um leið og þeir vilja en staðan verði ekki sú í þessu kerfi að viðkomandi verði sagt að hann eigi að fara á biðlista í sex mánuði eða jafnvel ár. Í flestum tilfellum getur það orðið allt of seint. Ég vona heitt og innilega að við berum gæfu til að gera þetta almennilega, fyrst við ætlum að gera þetta á annað borð, og hnýta þá alla lausa enda sem þarf til þess að þetta virki.