150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann hélt því fram að neyslurými í erlendum stórborgum hafi reynst vel. Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því? Ég hef upplýsingar um allt annað, af því að ég hef verið tengdur fíkniefnaheiminum í sennilega 30 ár. Þær borgir sem hv. þingmaður nefndi eru raunverulega orðnar hálfgerðar miðstöðvar fíkniefnadreifingar og neyslu í allri Evrópu. Þannig að ég hef verulegar efasemdir um að það sé eitthvert sannleikskorn í þessu. Ég er ekki að segja að það megi ekki vera neyslurými, ég held bara að þessi fullyrðing sé einfaldlega röng. Hún kemur örugglega ekki frá lögregluyfirvöldum í þessum löndum og ekki lögregluyfirvöldum hér á landi. Ég get algerlega fullyrt það. Þannig að ég vildi gjarnan vita hvaðan þær upplýsingar koma um að þetta hafi reynst vel. Sjálfsagt hefur þetta reynst vel fyrir einhverja neytendur, en hefur þetta reynst vel í baráttunni við fíkniefni? Við ólöglega neyslu eða neyslu á ólöglegum efnum?

Hvað hefur þetta bætt í löndum með þeim borgurum sem um er að ræða?