Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þykist vita að það er mjög auðvelt að verða sér úti um fíkniefni, þeir sem ætla á annað borð að gera það. Mér hefur alltaf fundist svo sérstakt hvað menn eru almennt á móti frelsi í áfengissölu, af því að ég sé að helstu stuðningsmenn þessa frumvarps eru á móti því, meira að segja sá sem flytur það er mjög á móti einhvers konar frelsi í áfengissölu, en svo finnst mönnum einhvern veginn allt í lagi að búa til einhvern sérstakan stað. Ég ætla að halda ræðu um það á eftir.

En þegar við erum að velta fyrir okkur að opna eitthvert neyslurými þurfum við að skoða heildarmyndina. Að búa til eitthvert eitt neyslurými leysir engan vanda. Hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði áðan að það gæti hugsanlega aukið á vandann, ég veit það ekki. Mér finnst þetta frumvarp bera þess merki að það kemur einhver hugmyndafræði upp, en ég held að það sé svolítið vanhugsað og það þarf að ræða þetta betur. Ég hef miklar efasemdir um þetta frumvarp þótt ég hafi fyrir 30 árum verið mjög á móti refsingum í þessum málum yfir höfuð, ég hef alltaf litið á þetta sem heilbrigðisvandamál sem ekki verði leyst með refsingum. Það er ekki þar með sagt að það eigi að leyfa þetta hvar sem er o.s.frv., ekkert frekar en áfengi. En þetta er umræða sem ágætt er að taka. Mér finnst hafa skort svolítið á það í umræðunni um að skoða heildarvandann. Leysum við eitthvað með þessu? Erum við að jafnvel að gefa röng skilaboð með þessu o.s.frv.? Þetta er auðvitað stílbrot á reglunum af því að þetta er refsivert, þetta er ólögmætt, en svo allt í einu tökum við það út og segjum: Nei, það er ekki refsivert ef maður er í neyslurýminu. Þetta er mjög sérstakt og ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég hef efasemdir.