150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Auðvitað er þetta alltaf spurning. Ég er að mörgu leyti sammála honum, boð og bönn virka ekki. Ég hef líka oft furðað mig á einstrengingshætti okkar í sambandi við áfengismálin. Ég hef oft hugsað með mér: Bíddu, við megum fara á þennan stað og ná í áfengi en við megum ekki gera það á hinn háttinn, sem er samt það nákvæmlega sami hátturinn nema bara miklu einfaldari. Ég hef aldrei náð svona boðum og bönnum, ég hef einhvern veginn alltaf hugsað með mér: Um leið og við erum komin með boð og bönn þá er eitthvað spennandi.

En hvernig við ætlum að leysa fíkniefnamálin. Ég segi fyrir mitt leyti að við verðum aðeins að hugsa út fyrir boxið. Þetta getur bitið okkur. Við höfum lent í því að við setjum lög sem bíta okkur og koma okkur í koll að einhverju leyti. En við erum þó alla vega farin að færa hugsunina aðeins út fyrir þann ramma sem við erum búin að vera föst í og höfum hangið í að við erum með löggjöf. Við segjum: Ef maður neytir fíkniefna þá er maður að brjóta lög, það á að refsa manni. Við erum að reyna að setja þessi mál aðeins í þann farveg að maður geti neytt eiturlyfja án þess að vera refsað og verið um leið í aðeins heilbrigðara umhverfi, reyndar mun heilbrigðara umhverfi, sem það er í flestum tilfellum. Við erum eitthvað að reyna að færa okkur upp úr þessum föstu fótsporum sem við höfum verið í. Við erum búin að vera föst í sömu rullunni áratugum saman. Við verðum einhvern veginn að leysa þetta mál. Ég held bara fyrsta skrefið sé að leysa það á einhvern hátt. Byrjum á því núna.