150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum í dag þýðingarmikið málefni, nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem við nefnum neyslurými. Þetta er breyting á lögunum, þetta er innihaldsmikið efni og þýðingarmikið. Kannski er þetta tímamótabreyting. Kannski er hægt að segja það.

Við erum ekki að fjalla um hinar sólbjörtu lendur mannlífsins. Við erum að ferðast um húmið í mannlífinu, um málefni þeirra sem höllum fæti standa og eiga sér ekki endilega marga málsvara og samfélaginu hefur ekki tekist að fjalla um með sanngjörnum hætti. Þetta er ekki óumdeilt efni sem við fjöllum um hér í dag og það kann að orka þungbært á einhverja, eins og í ljós hefur komið, hvað varðar siðferðileg viðfangsefni. Hér kallast nefnilega á ýmisleg rótgróin sjónarmið, viðtekin siðgæðisviðmið, samfélagsleg þjónusta, mannúð, lög, reglur, fagmennska o.fl. Það var í rauninni sorglegt og dapurlegt að heyra á máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar og Ásmundar Friðrikssonar hvernig þeir fjölluðu um efnið og hvarflaði að manni að þarna væru á ferðinni uppvakningar frá löngu liðinni tíð, frá horfnum viðhorfum. Það kom á óvart því að þessir ágætu hv. þingmenn hafa í ræðustól talað af mannkærleik og talað fyrir því að menn ættu að sýna hver öðrum kristilegt umburðarlyndi.

Ég spyr: Hvað eigum við að taka til bragðs og hvernig eigum við að hlúa að og búa í haginn fyrir einstaklinga í þessum hópi? Þetta er ekki lítill hópur á Íslandi. Þetta eru hugsanlega um 700 einstaklingar okkar bræðra og systra sem eru háðir sprautugjöf vegna fíkniefnaneyslu. Flestir eru okkar bræður. Konurnar eru miklu færri. Hvernig eigum við að búa í haginn? Hvernig vilja hv. þingmenn sem töluðu áðan að búið verði um hnútana? Á að taka þetta fólk og loka það inni? Eigum við að senda það út fyrir borgarmörkin eða út á galeiðuna? Hvernig eigum við að taka á málefninu? Mér finnst að með þessu frumvarpi, með breytingum, séum við að rísa upp sem upplýstir þegnar, upplýst þjóð, með því að bregðast við vanda sem blasir við og sem við höfum látið viðgangast án þess að gera svo ýkja mikið, án þess að bregðast við. Við vitum af vandanum en við höfum ekki brugðist við honum. Frumvarpið er viðleitni í átt til breytinga og það er fagnaðarefni.

Þau viðhorf eru að skjóta rótum að um sé að ræða sjúkdómsmerki, ekki afbrotamerki. Hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á afglæpavæðingu og þar erum við kannski að nálgast það með þessu litla skrefi í þá átt að fjalla af meiri sanngirni og meiri skynsemi um málefni þessa hóps. Það er fagnaðarefni að lögreglan og heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld taka höndum saman. Þó að þau geti það ekki mjög þétt ríkir traust á milli þessara aðila um að taka á þessu viðfangsefni saman og reyna að bæta þar úr. Það er fjarri því að verið sé að ýta undir fíkniefnaneyslu. Það eru öfugmæli.

Við trúum því að hver maður sé fæddur frjáls. Hann leiðist af einhverjum ástæðum, atvik hendir fólk og það leiðist út á brautir sem það kannski síst af öllu vildi vera á sjálft. En lífið er svona. Það er ekki bara einfalt. Við horfum fram á bjartari tíma hvað þennan hóp þegnanna, samborgaranna okkar, áhrærir.

Það frumvarp sem við fjöllum um núna, og við heyrðum nefndarálit hv. velferðarnefndar ágætlega flutt hér í dag, hefur svo sem verið flutt áður en náði ekki alla leið á þetta stig og við erum vongóð um að það nái alla leið nú. Það hefur fengið að mínu áliti mikla umfjöllun í velferðarnefnd og tekið breytingum, ekki meiri háttar, en skerpt er á ýmsum atriðum og þær breytingar hafa allar verið, held ég, af hinu góða til að skýra myndina, t.d. varðandi það að þeir sem heimsækja neyslurými mega hafa tiltekið magn efna með sér, þ.e. einn neysluskammt. Það er líka tekið á því að enginn nýtur þjónustu þarna sem er undir 18 ára aldri og þangað koma engir nýgræðingar eða ungt fólk sem ekki er í neyslu. Það á ekkert erindi þangað. En fjallað er um þetta af sumum eins og neyslurýmið sé einhver dreifingarmiðstöð fyrir fíkniefni. Það finnst mér vera nöturleg staðhæfing, en það kann að vera að það hafi þróast með einhverjum hætti annars staðar á þann veg. En það er ekki lagt upp með það hér.

Eins og komið hefur fram gengur frumvarpið út á það að embætti landlæknis verði heimilað í samráði við sveitarfélög að opna og starfrækja neyslurými. Þar verði skapaðar tryggar aðstæður og starfað verði undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur líka fram að lögð sé áhersla á að aðstæður viðkomandi séu skoðaðar, áhersla sé lögð á að heilbrigðisþjónusta, geðheilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta sé í boði og það sé framarlega í forgangsröð fyrir þá sem þess þurfa og þess kjósa. Við virðum mannhelgi. Þetta eru lögráða einstaklingar og alla jafna fjárráða og það verður auðvitað að ráða för, þar ræður hver sínum örlögum að þessu leyti.

Það hefur líka komið fram að úrræði um neyslurými styðst við þá hugmyndafræði að um skaðaminnkun sé að ræða. Það felist í því að menn leitist við að draga úr heilsufarlegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra ávana- og fíkniefna án þess endilega að draga úr notkun ávana- og fíkniefna. En öll höfum við auðvitað þá draumsýn að mögulegt sé að draga úr þeirri fíkn sem fylgt hefur okkur mannkyninu frá örófi alda í einni eða annarri mynd og við sækjum dálítið mikið í. Rétt er að leggja áherslu á að þessi skaðaminnkunarúrræði og þau úrræði sem við erum að tala um hér með neyslurými gagnast ekki bara þeim sem í hlut eiga. Það eru líka fjölskyldur á bak við þessa einstaklinga. Nærsamfélagið verður fyrir áhrifum af þessu og samfélagið allt. Grundvallarþáttur þeirrar hugmyndafræði er líka sá að í þessum úrræðum felst viðurkenning á því að fjöldi fólks víða um heim heldur áfram að nota ávana- og fíkniefni þrátt fyrir alla viðleitni í þágu forvarna, fræðslu og fyrirbyggjandi starfa til að koma í veg fyrir byrjun á neyslu vímuefna eða áframhaldandi notkun efnanna.

Menn hafa bent á að það sé misjöfn reynsla af neyslurýmum. Neyslurými eru til úti um víða veröld og eru nokkuð yfir 90 talsins skráð sem slík. Borgir, borgaryfirvöld, hafa ekki farið út í þessar ráðstafanir nema að vel yfirveguðu máli vegna þess að ástæða hefur verið til, aðstæður í borgunum hafi verið orðnar mjög erfiðar gagnvart þessum einstaklingum. Menn hafa viðurkennt það og opnað augun fyrir þeim staðreyndum.

Hvað á þetta að hafa í för með sér? Hvað getur þetta leitt af sér? Ekki er endilega stefnt að því að fólk hætti í neyslu. Það er hins vegar mjög augljós ávinningur að mörgu leyti. Ýmsir sjúkdómar eru gjarnan fylgifiskar neyslunnar; HIV-smit, lifrarbólga, o.s.frv. og veikleikar varðandi næringu, ofþornun, skammtastærðir og hreinlega dauðsföll. Neyslurými og að komast í samband við þjálfað fagfólk getur skipt sköpum.

Fram hefur komið í ræðum þeirra sem hafa tekið til máls að við höfum fjallað um þessi atriði um nokkra hríð. Við þekkjum öll frumkvæði Rauða krossins að Frú Ragnheiði sem starfar að skaðaminnkandi verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þessi starfsemi hefur sannað gildi sitt og hefur hlotið viðurkenningu. Við vildum ekki án þeirra vera og það er á þeim vettvangi sem ýtt er undir og hvatt til þess að við styrkjum þá umgjörð enn frekar. En við erum ekki endilega og alls ekki komin á endastöð. Ég nefndi það að ákjósanlegt hefði verið að sjá meiri og ákveðnari skref stigin í þá átt að líta á þetta sem heilbrigðisvandamál í staðinn fyrir að afgreiða þessi mál að forminu til í dómskerfinu. Á þetta hefur verið bent í þinginu og lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um afglæpavæðingu. Í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið fjallað um þetta sömuleiðis. Við horfum auðvitað fram til þess að það skref sem við stígum með þessari lagasetningu verði skref í þá átt.

Það eru ýmis önnur áhugaverð efni í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin starfræki þessa þjónustu. Við eigum eftir að fá tryggingu fyrir því að sveitarfélögunum verði gert kleift fjárhagslega að starfrækja þetta. Ráðuneytið hefur lagt til 50 millj. kr. til koma fyrstu rýmunum af stað en það þarf meira til. Það þarf að tryggja starfrækslu þeirra á heilsársgrundvelli.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Við sjáum það í kringum okkur að menn eru að hugsa meira í þá átt að líta á þetta viðfangsefni þeirra einstaklinga sem lenda af ýmsum ástæðum í erfiðum aðstæðum og á refilstigum á grýttri braut neyslunnar, fyrst og fremst sem heilbrigðisvandamál. Við gerum það með áfengi. Það hefur ekki alltaf verið svo. Ekki eru margir áratugir síðan viðhorfið til áfengisneyslu var með allt öðrum hætti en í dag. Norðmenn eru mjög áfram um að fara braut afglæpavæðingar í þessu tilliti.

Ég vil í lokin lýsa því yfir að hæstv. ráðherra sýnir dirfsku og framsýni með því að leggja þetta frumvarp fram, sem ég tel að ýmsu leyti vera tímamótafrumvarp. Þetta er tímamótahugsun. Við erum nú að feta braut skynsemi, að mínu áliti, og raunsæi. Við setjum ekki lengur kíkinn fyrir blinda augað. Mér finnst það endurspeglast í frumvarpinu. Við reynum að horfa á raunveruleikann, veruleikann og tilveruna, lífið og daglega líf okkar eins og það er. Þetta er útbreiddur vandi og okkur ber að bregðast við og gera það sem í okkar valdi stendur til að búa betur í haginn fyrir þennan hóp sem á sér fáa málsvara, hefur mætt tortryggni, skilningsleysi og jafnvel vandlætingu meðal margra og m.a. í okkar manngerðu kerfum, bæði á félagssviði og heilbrigðissviði.