150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp sem er um margt mikil tímamót. Ég tók aðeins til máls í fyrri umræðu, þegar þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi, og ég er á svipuðum stað núna. Mér finnst þetta rosalega erfitt og sorglegt. Ég var alveg í liðinu Vímuefnalaust Ísland 2000 og mér finnst stóra málið vera forvarnir. Auðvitað væri best ef þetta samfélag gæti verið laust við fíkniefni en því miður erum við hérna árið 2020 og landið er ekki enn þá orðið vímuefnalaust og ekkert bendir til þess að það sé að fara að gerast. Ég held að þetta frumvarp hafi í rauninni ekkert með það að gera. Ég held að það muni hvorki fjölga né fækka fíkniefnaneytendum. Aftur á móti er þetta mjög mikilvæg þjónusta, eins og ég lít á það, við þá sem eru lengst leiddir í fíkn. Ég veit að hv. velferðarnefnd breytti orðalaginu aðeins þegar kemur að því en mín, kannski að einhverju leyti takmarkaða, þekking á þessum málaflokki er þannig að þeir sem neyta fíkniefna í æð eru yfirleitt þeir sem eru hvað lengst leiddir. Hafandi farið með ástvini í gegnum þessa baráttu þá upplifi ég það þannig að meðal þeirra sem neyta fíkniefna sé töluverð stéttaskipting, eða ekki stéttaskipting heldur fordómar. Ég held að enginn prófi að reykja gras eða hass eða taka kókaín og ætli sér að sprauta sig seinna. Ég held ekki og af minni reynslu og samtölum við fólk sem hefur verið að berjast við fíkn þá átti það mjög erfitt með að viðurkenna á einhverjum tímapunkti að það væri svo langt leitt í sinni neyslu að ákveða að sprauta sig og það almennt ekki talið neitt töff í þeim heimi. Þess vegna held ég að þetta sé mjög gott mál og mikilvægt, ég er reyndar alveg viss um það, en mér finnst það erfitt. Ég skil líka alveg fólk sem hefur verið hér uppi að lýsa skoðunum sínum og finnst erfitt að stíga þetta skref en ég er algerlega viss um að þetta hefur ekkert með það að gera hvort við getum losnað við fíkniefni eða hvort þeim fjölgi eða fækki. Aftur á móti er þetta skaðaminnkandi og það er mikilvægt að þeir sem eru illa staddir hafi þessa þjónustu sem þarna er boðið upp á, þannig að ég styð þetta mál.

Mig langar aðeins að taka umræðuna um það hver beri ábyrgð á þessu því að í mínum huga er þetta heilbrigðismál. Heilbrigðismál heyra undir ríkið og heilbrigðisráðherra. Hérna er hugað að því að ríkið leggi til fjármuni og sveitarfélög geti nýtt þessa fjármuni í að reka þessa þjónustu. Mig langar ekki að verða til þess að flækja málið því ég held að mikilvægt sé að það komist í gegn og ég heyrði hjá framsögumanni að þetta hafi vissulega verið rætt í nefndinni og farið yfir það. En reynsla mín og skoðun á samskiptum við sveitarfélögin er að við erum allt of oft að nudda einhvern veginn saman hlutverki ríkis og sveitarfélaga. Það veldur núningi og leiðindum og eyðir alveg ofboðslega miklum tíma og peningum skattgreiðenda í að takast á. Ég get nefnt hjúkrunarheimili sem dæmi, sem er augljóslega heilbrigðisþjónusta og ríkið á að standa fyrir en sveitarfélögin hafa barist með hagsmuni íbúa sína að leiðarljósi fyrir því að hjúkrunarheimili rísi í sínum sveitarfélögum, hafa tekið að sér reksturinn með einhverju samkomulagi við ríkið og svo hafa peningarnir ekki dugað og nú eru þessir aðilar í stöðugum átökum. Ég verð að viðurkenna að ég óttast mjög að mál sem þetta geti endað á sambærilegum stað þannig að almennt vil ég segja að mér finnst að við þurfum að hreinsa til í þessu kerfi svo það sé alveg skýrt hverju ríkið ber ábyrgð á og hverju sveitarfélög bera ábyrgð á. Við eigum að reyna að blanda því ekki saman til að auka ekki enn á þann ágreining sem er reglulega milli ríkis og sveitarfélaga.

Þetta var fyrst og fremst það sem ég vildi koma á framfæri. Ég get sagt með vissu að ég styð þetta mál en mér finnst það samt sem áður erfitt. Mér finnst þetta ákveðin uppgjöf gagnvart einhverju samfélagi sem ég hefði gjarnan viljað sjá og ég veit að margir deila þeirri sýn með mér. En því miður held ég að verðum bara að sætta okkur við að það er óraunhæft.