150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

verkefni á vegum NATO.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn sem er mikilvægt að komi fram í þinginu í dag, einmitt sökum þeirra frétta sem fluttar hafa verið af þessu máli. Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að Vinstrihreyfingin – grænt framboð standi gegn þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég hef ekki séð nein rök færð fyrir þeirri staðhæfingu og minni þar á að í kjölfar yfirlýsingar sem íslensk stjórnvöld undirrituðu með bandarískum stjórnvöldum árið 2016, þar sem boðuð var ákveðin uppbygging á Keflavíkurvelli og í kjölfar hennar sameiginlegur skilningur stjórnvalda á árinu 2017 um það hvað sú uppbygging skyldi snúast um, hefur staðið yfir á Keflavíkurvelli uppbygging fyrir 12 milljarða kr. Sýnir það ekki að Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur við þær ákvarðanir sem teknar eru og byggjast á mati á varnarhagsmunum sem fram fór í kjölfar þeirrar yfirlýsingar sem gefin var út 2016?

Það sem hér er rætt um eru hugmyndir um viðbótarframkvæmdir á þessu svæði. Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað milli íslenskra stjórnvalda og Atlantshafsbandalagsins um þær framkvæmdir. Þetta eru hugmyndir sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fram til umræðu í tengslum við fjáraukalög sem unnin voru með miklu hraði. Þá segi ég og ítreka það sem ég hef áður sagt: Ákvörðunum um utanríkispólitík og varnarhagsmuni ber ekki að rugla saman við efnahagsaðgerðir þegar Íslendingar standa í efnahagsþrengingum sem ég hefði talið að hv. þingmaður væri mér sammála um að við værum í öllum færum um að geta staðist algjörlega án utanaðkomandi aðstoðar á borð við þessa. Svona ákvörðun hlýtur alltaf að teljast utanríkispólitísk og byggjast á sameiginlegu mati aðila á varnarhagsmunum.