150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

lífeyrir almannatrygginga og bifreiðastyrkur.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla samt að tala um varnarmál, bara önnur varnarmál. Ég ætla að taka til varnar fyrir eldri borgara og öryrkja sem því miður eru í þeirri dæmalausu stöðu í dag að þegar þeir þurfa að leysa út lyf þurfa þeir að borga fyrir þau með raðgreiðslum með tilheyrandi kostnaði eða smálánum. Er boðlegt að leyfa svona hlutum að ganga? Hvers vegna er staðan svona slæm? Vegna þess að við erum búin að búa til stórfurðulegt kerfi. Við erum búin að búa til kerfi þar sem er verðtrygging á lán íbúða en á sama tíma búum við til styrki í almannatryggingakerfinu sem eru gjörsamlega óverðtryggðir. Tilteknar tölur eru settar inn og frá 2009 til dagsins í dag hefðu bifreiðastyrkir til mikið fatlaðra einstaklinga í hjólastólum hækkað, eða átt að hækka, um 426.000 kr., 40%. Það er rýrnunin. Það kostar að fyrir einstaklinginn sem þarf nauðsynlega bifreið, er búinn að selja sína bifreið, er búinn að kaupa sér aðra og bíður eftir því að leysa hana út, hækkaði viðkomandi bifreið vegna gengislækkunar um 1,5 milljónir.

Ef þessi styrkur hefði verið verðtryggður væri hann búinn að hækka um 2 milljónir á þessu tímabili þannig að afgangur væri 500.000 kr. Ég spyr hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Er einhver stefna hjá ríkisstjórninni að segja við fólk: Við ætlum að styrkja ykkur um lyf, bifreiðar og rekstur bifreiða en við ætlum að setja ákveðna krónutölu inn í þetta og leyfa henni að rýrna svo þannig að ekkert verði úr henni? Þá getur fólk ekki nýtt sér þennan styrk. Verða einhverjar breytingar þarna á?