150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég myndi vilja segja fyrst er að á þeim tíma sem við ákváðum að fara hlutastarfaleiðina, hlutabótaleiðina, þá treystum við okkur ekki til að ákvarða hana nema tvo og hálfan mánuð fram í tímann vegna óvissunnar. Það sem hefur skýrst í millitíðinni er að efnahagslegu áhrifin af þessum faraldri eru einhver þau mestu sem sést hafa í heila öld, ekki bara á Íslandi heldur á alþjóðavísu. Við þær aðstæður er ljóst að við þurfum að grípa til óvenjulegra ráðstafana. Það verður erfitt að meta þetta upp á hár en við gerum ráð fyrir því hér að þeir sem geti staðið við launagreiðslur fari áfram á hlutabótaleiðina. Hún hækki hins vegar í lok júnímánaðar upp í 50%. Það er alveg öruggt að þau fyrirtæki sem eru einkennandi fyrir þau sem við erum að hugsa í þessu máli munu ekki bara eiga mjög erfitt með að standa við 25% af laununum heldur er alveg útilokað (Forseti hringir.) að þau gætu uppfyllt skilyrði hlutabótaleiðarinnar framlengdrar þegar hlutfallið fer í 50%.