150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og skil alveg hvað hann er að fara. Það eru fyrirtæki sem ráða ekki við að segja starfsmönnum upp og við erum að reyna að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Ég tek heils hugar undir að það er mikilvægt vegna þess að það tapast náttúrlega dýrmæt reynsla og annað slíkt og getur orðið mjög kostnaðarsamt ef það verða fjöldagjaldþrot í greininni. Engu að síður finnst mér vanta, t.d. innan vinnu fjárlaganefndar — við erum að tala um háar fjárhæðir sem fara í þetta, 27 milljarða held ég að hæstv. ráðherra hafi sagt áðan — að sjá ekki hvað það eru mörg fyrirtæki sem eru orðin svo illa stödd að þau muni ekki ráða við hlutabótaleiðin áfram, sem dæmi, og muni hreinlega fara í gjaldþrot. Þessar tölur hef ég alla vega ekki séð innan nefndarinnar og reyndar búinn að óska eftir minnisblaði um það. En ég hefði talið að það væri nauðsynlegt að fá einhvers konar yfirlit, ef það er hægt, yfir hversu mörg fyrirtæki það eru sem standa verulega illa.