150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum vísbendingar úr könnunum sem Samtök atvinnulífsins hafa gert og við sjáum auðvitað líka á tölum Hagstofunnar ýmsar vísbendingar. Ég rakti það áðan í framsöguræðu að við værum að gera ráð fyrir því að 90% þeirra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum greinum og hafa verið á hlutastarfaleiðinni muni nýta sér þetta úrræði. Þegar menn leggja saman frumvarp félagsmálaráðherra og þetta frumvarp sjá menn gróft hvernig við erum að meta þetta. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það væri ekki slæmt að hafa enn nánari og skýrari mynd af því sem er líklegt að gerist, en stundum þurfum við að taka ákvarðanir án þess að búa við þann lúxus. Ég legg bara áherslu á það að greiðsluskjólið sem frumvarp dómsmálaráðherra getur veitt mun vera úrræði sem gagnast mörgum og jafnvel fyrirtækjum (Forseti hringir.) sem munu leita í þetta. Þetta eru í raun og veru fjölbreytt og fjölþætt úrræði sem saman munu leysa vandann, trúi ég.