150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Frumvarp það sem við ræðum hér er hluti af þriðja aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins og áhrifa hans á efnahagslífið eins og við öll þekkjum. Það er nokkuð ljóst að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin er að bæta við aðgerðapökkum er sú að forsendur fyrri pakka hafa byggst á vanmati. Við í Miðflokknum höfum áður gagnrýnt þetta. Ríkisstjórnin kemur fram með efnahagsaðgerðir vegna veirufaraldursins í smáskömmtum sem hafa augljóslega ekki dugað og það er nú bara þannig að smáskammtalækningar hafa almennt aldrei dugað nægilega vel. Við í Miðflokknum höfum margsinnis bent á það í þessari umræðu og í tengslum við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar að það átti strax í upphafi að koma með stórar og almennar aðgerðir, annars væri hætta á því að dýrmætur tími tapaðist og fyrirtæki gæfust upp og fjöldi starfa tapaðist þar með. Það liggja gríðarleg verðmæti í því starfsfólki sem er í þessum fyrirtækjum eins og í ferðaþjónustugeiranum sem þetta kemur hvað harðast niður á, hver dagur er dýrmætur í þessum efnum, að sú staða komi ekki upp að fyrirtækin þurfi að gefast upp. Þess vegna er mikilvægt að öll úrræði séu tiltæk og almenn og komi til bjargar þegar á þeim þarf að halda. Allur dráttur í þessum efnum er afar slæmur. Auk þess höfum við reglulega bent á að aðgerðirnar þurfi að vera einfaldar og komast hratt til framkvæmda. Á það hefur skort hjá ríkisstjórninni. Við höfum séð það, t.d. hve illa gekk að koma brúarlánaaðgerðunum til framkvæmda. Ég held að það séu örfá fyrirtæki farin að ræða þá leið við fjármálastofnanir. Ég held að þetta hafi farið af stað bara í síðustu viku, rúmum mánuði eftir að málið var samþykkt hér. Þetta sýnir að það er ekki nógu vel haldið á framkvæmdaþættinum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nú á sem sagt að fara að koma stuðningslánunum til framkvæmda og maður óttast að sömu tafirnar verði þar. Þetta getur allt valdið miklum skaða.

Það er ljóst að væntingar um skjótan efnahagsbata hafa ekki gengið eftir, því miður. Að sjálfsögðu vonuðumst við til þess að þetta gengi hratt yfir og ferðamenn færu að koma. Málin hafa því miður ekki þróast í þá veru. En það er alveg ljóst að nær allar útflutningsgreinar hafa orðið fyrir miklum skelli. Samdrátturinn í hagkerfinu á meðan samkomubannið hefur staðið yfir hefur komið hvað harðast niður á ferðaþjónustunni en auk þess í miklum samdrætti í eftirspurn á fjölmörgum öðrum sviðum efnahagslífsins. Við þekkjum það, ýmsar lokanir þjónustufyrirtækja hafa valdið því. En sú hætta er líka fyrir hendi að innlend neysla og eftirspurn taki hægar við sér en menn áætluðu og voru að vonast til. Þar hefur mikið atvinnuleysi að sjálfsögðu áhrif.

Ferðaþjónustan birti nýlega skýrslu frá KPMG, sem hún lét vinna fyrir sig. Þar er minnt á að ferðaþjónustan skuldar 300 milljarða kr. og hún er nánast tekjulaus. Þetta er grein sem er nánast tekjulaus núna sem skuldar 300 milljarða. Það þarf náttúrlega að greiða af þessum lánum þannig að greinin er á mjög erfiðum stað um þessar mundir og hún hefur skapað um 40% af gjaldeyristekjum og um 20.000 manns hafa haft vinnu í greininni. Vandinn er því mjög mikill og þess vegna er mjög mikilvægt, eins og ég segi, að þessar aðgerðir komi að gagni.

Ég vildi minnast aðeins á það hér, vegna þess að ég talaði um að skuldir ferðaþjónustunnar væru um 300 milljarðar, að við verðum líka að horfa til banka og fjármálastofnana í þeim efnum. Þar eru náttúrlega lán, bæði á vegum fasteignafélaga og þessi óbeinu lán sem eru hjá ferðaþjónustunni og síðan bein lán. Samtals gerir þetta um 300 milljarða. Síðan eru fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra í gegnum sjóði o.s.frv., skráð félög, sem eru þarna líka á bak við. Höfum í huga að bókfært eigið fé bankanna var í árslok 2018 u.þ.b. 630 milljarðar kr. Versta sviðsmyndin ef kæmi til fjöldagjaldþrota í greininni — við erum náttúrlega öll sammála um það og erum að reyna að vinna að því að það muni ekki gerast og þetta frumvarp lýtur að því, og ég kem nánar að því hér á eftir — gæti verið sú að 50% af eigin fé bankanna myndi tapast af lánum til ferðaþjónustufyrirtækjanna. Þá er spurningin hvaða áhrif það hefur á fjármálafyrirtækin. Verða þau lán afskrifuð o.s.frv.? Síðan er óhjákvæmilegt að einhver þeirra fari í þrot.

Staðan er mjög alvarleg og þess vegna er mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem lagt er upp með í frumvarpinu, að greiða uppsagnarfrestinn, skili tilætluðum árangri. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það í framsöguræðu sinni að ekki væri hægt að segja til um það hvaða árangri þetta skilaði. Ég tek undir það með honum að það er erfitt. En það vantar hins vegar ákveðnar greiningar á fjölda fyrirtækja að mínum dómi. Alla vega höfum við ekki fengið að sjá það og rétt að nefna aðeins í þessu sambandi, af því að ég nefndi að 25.000 manns starfi í greininni, að ef við tökum Suðurnesin sérstaklega út þar sem staðan er mjög alvarleg, atvinnuleysið að nálgast 30%, þá störfuðu sumarið 2017 um 6.000 manns bara á Keflavíkurflugvelli. Þá eru ótalin afleidd störf á svæðinu. Þetta sýnir náttúrlega náin tengsl á milli umsvifa á Keflavíkurflugvelli og svo tekna sveitarfélaganna á svæðinu. Þetta spilar allt saman og þess vegna er afar brýnt að við náum að koma með aðgerðir í tíma sem geta þá lágmarkað það tjón sem við stöndum frammi fyrir. Það er alveg ljóst að ferðaþjónustan verður að fá nauðsynlega lánafyrirgreiðslu til að geta dregið andann, ef svo má segja, og til að geta tekið við ferðamönnum þegar þeir koma aftur sem verður ekki langt í, við vonum það.

Annar aðgerðapakki sem samþykktur var í síðustu viku olli hins vegar vonbrigðum. Umfang hans er að sögn ráðamanna um 60 milljarðar kr. Uppistaðan í því var fyrirgreiðsla í formi stuðningslána og frestunar á skattgreiðslum af hagnaði sem gagnast litlum fyrirtækjum, mjög litlum með litla veltu, sumir kalla þetta örfyrirtæki. Stuðningslánin tóku reyndar mikilvægum breytingum í meðförum nefndarinnar og rétt að halda því til haga. En mörg þessara fyrirtækja standa frammi fyrir alvarlegum lausafjárvanda og geta jafnvel ekki greitt starfsfólki hluta launanna um nokkurra mánaða skeið. Af þeim sömu orsökum er ljóst að fyrirtækin ráða ekki við að greiða uppsagnarfrest og það er hugmyndin að baki frumvarpinu eins og við þekkjum.

Ég hafði á fyrri stigum ákveðnar efasemdir varðandi þessa leið og maður hefur heyrt af því, þegar maður hefur talað við forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa viljað fara aðra leið, að verið sé að hvetja til uppsagna, þ.e. að ríkið sé að hvetja fyrirtæki til að segja fólki upp. Við sáum að það kom ákveðin bylgja uppsagna í kjölfar þess að stjórnvöld tilkynntu að þau ætluðu að greiða uppsagnarfrest. Það eru ákveðin fyrirtæki sem hefðu viljað fara aðra leið sem hafa gagnrýnt þetta. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi síðan einnig í ræðunni að það séu fyrirtæki sem ráða ekki við skilyrði hlutabótaleiðarinnar og auðvitað þarf að fara nánar yfir það. Ég hefði talið að við hefðum þurft að hafa einhver gögn hjá okkur þess efnis hver fjöldi þeirra fyrirtækja er sem hefði viljað fara aðra leið, viljað fara hlutabótaleiðina og hefði viljað sjá hana framlengda versus þau fyrirtæki sem hreinlega ráða ekki við þetta og þurfa nauðsynlega á þessum aðgerðapakka halda, þ.e. greiðslu á uppsagnarfrestinum. Þetta eru nauðsynleg gögn sem þarf að hafa við hendina þegar við förum yfir þetta og ég hef kallað eftir sérstöku minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar hvað þetta varðar.

Það er ákveðinn fjöldi fyrirtækja sem vill halda í sitt starfsfólk og myndi gagnast betur að vera áfram á hlutabótaleiðinni en nú á að fara að breyta henni. Hún er vissulega framlengd en með nýjum skilyrðum. Mér finnst, í tengslum við þetta mál, nauðsynlegt að fá greiningu í þessu samhengi, þ.e. hversu mörgum fyrirtækjum myndi gagnast betur að halda áfram á hlutabótaleiðinni og hversu mörg fyrirtæki geta ekki greitt uppsagnarfrestinn. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að það er mikilvægt að forða þessum fyrirtækjum frá fjöldagjaldþrotum og greininni almennt. Eins og gefur að skilja er mikil hætta á að ekki aðeins fjárhagsleg verðmæti fari forgörðum heldur jafnframt mikilvæg þekking og reynsla sem er augljós framtíðarávinningur ef vel er á málum haldið. Það er nú bara þannig að fjöldagjaldþrot í greininni er engin lausn og almenn gjaldþrot ferðaþjónustufyrirtækja munu hamla verulega uppbyggingu í greininni á ný og jafnvel um árabil. Það er því til mikils að vinna í þeim efnum.

Miðflokkurinn styður þetta frumvarp og við höfum stutt öll frumvörp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hafa miðað í þá átt að bæta stöðuna gagnvart fyrirtækjum og heimilum í þessu erfiða árferði og í þessum erfiðu aðstæðum. Við sýnum þar með ábyrgð í þeim efnum. Við höfum komið með fjölmargar tillögur og ég hef áður sagt frá því hér. Við höfum komið með breytingartillögur við fjáraukalagafrumvörpin sem hér hafa verið flutt og samþykkt og við höfum komið með tillögur í fjölmiðlum. Við höfum sent forsætisráðherra tillögur. Því miður hefur ekkert verið hlustað á tillögur okkar og breytingartillögur við fjáraukann verið felldar. Það er að sjálfsögðu dapurlegt. Það virðist vera þannig af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þm. Logi Einarsson nefndi í sinni ræðu, að það virðist ekki vera sama hvaðan tillögurnar koma. Ríkisstjórnarflokkarnir eru að biðja um samráð og tillögur en það virðist vera hálfgerð sýndarmennska í því. Sem betur fer hafa breytingar þó náð fram í nefndarvinnunni að hluta til og þar nefni ég t.d. stuðningslánin sem tóku mikilvægum breytingum í meðförum nefndarinnar. Sjálfsagt hefur stjórnarandstaðan eitthvað komið að því. En það er svolítið áberandi, finnst mér, af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún skuli alltaf fella allt það sem kemur fram frá stjórnarandstöðunni hvað þetta varðar. Við erum öll saman í þessari vinnu, að reyna að koma okkur út úr þessum efnahagslegu erfiðleikum og menn eiga ekkert að hugsa hvaðan tillögurnar koma. Ef útfærslan er mönnum kannski ekki alveg að skapi þá eiga þeir bara að segja það og vinna þá með stjórnarandstöðunni í því.

Við í Miðflokknum höfum viljað sjá frekari aðgerðir er lúta sérstaklega að ferðaþjónustunni. Við hefðum viljað sjá að öll innlend lán ferðaþjónustunnar yrðu fryst til loka árs 2021. Það er mjög mikilvæg aðgerð. Auk þess verði greiðslur fasteignagjalda sem lúta að þessum fyrirtækjum frystar í 24 mánuði vaxtalaust. Það er mjög mikilvægt til að reyna að halda þessum fyrirtækjum gangandi og reyna þá að halda í ráðningarsambandið en ekki hvetja til uppsagna sem virðist svolítið vera gert með þessu frumvarpi þó að það sé að mörgu leyti mikilvægt og við styðjum það.