150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það er víst þannig að það er oft auðveldara að vera vitur eftir á og þau mál sem við ræðum í dag sýna okkur að hlutabótaleiðin, eins og lagt var upp með hana á sínum tíma, var mögulega ekki rétta verkfærið, einfaldlega vegna þess að bilið sem henni var ætlað að brúa var miklu breiðara en búist var við. Hlutabótaleiðin hentar kannski ágætlega fyrir lítil fyrirtæki sem var gert með lagaboði að loka í einn til tvo mánuði en fyrir fyrirtæki sem sjá fram á að vera tekjulaus, jafnvel fram á haust, er meira en að segja það að halda áfram að greiða fjórðung af launum starfsfólks. Þess vegna erum við hér í dag að ræða frumvarp sem ber með sér þau nöpru tíðindi að reiknað sé með að 90% þess fólks sem hefur nýtt sér hlutabætur í ferðaþjónustu muni að þessu frumvarpi samþykktu verða sagt upp og ríkið stíga inn og greiða því fólki laun á uppsagnarfresti. 90% er stór tala en það er fjöldi einstaklinganna líka. Þetta eru 12.000 manns sem er nokkuð mikið miðað við það að nú í apríllok voru 16.000 manns á atvinnuleysisskrá.

Mig langar aðeins að ræða hérna, vegna þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvatti okkur til að skoða málin í samhengi, annars vegar þetta frumvarp og hins vegar sérstaklega frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra um framlengingu á hlutabótaleiðinni vegna þess að þegar við skoðum þetta í samhengi er verið að búa til nokkuð mikinn fjárhagslegan hvata til uppsagnanna. Fyrirtækin standa mörg tæpt og væntanlega kæmi til uppsagna hvað sem allri frumvarpssmíð líður. Fyrirtæki sem á í dag erfitt með að greiða fjórðung af launum starfsmanna sinna mun fljótlega með uppfærðri hlutabótaleið þurfa að greiða helming launa en fær í staðinn aðeins það vinnuframlag frá viðkomandi starfsmönnum sem samsvarar launagreiðslunum, 25% í dag og bráðum 50%. Ef fyrirtækið velur hins vegar að fara hér leið uppsagnastyrkja frá ríkinu, þá fellur kostnaðurinn niður í 0 en vinnuframlagið getur verið 100%. Þetta virðast sum fyrirtæki hafa nýtt sér, að halda starfsemi gangandi yfir sumarið en að sú starfsemi sé borin uppi af fólki á uppsagnarfresti. Það þarf að skoða hvort þetta sé eðlilegt. Venjulega er það þannig að launamaður vinnur út uppsagnarfrest nema um annað semjist á milli viðkomandi og atvinnurekanda. En þetta eru aðrar aðstæður. Þetta er annað verkfæri og ég vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði þetta vandlega. Ég ætla ekki að ganga jafnlangt og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem sagði að það væri siðlaust af fyrirtækjum að krefjast vinnuframlags frá starfsfólki á uppsagnarfresti í þessum aðstæðum. En það er ekki heldur að leggjast í híði eins og hæstv. ráðherra sagði í flutningsræðu sinni. Ef fyrirtæki nýta sér uppsagnastyrki til þess að keyra upp starfsemina þá er það svo sannarlega ekki að leggjast í híði.

Þá vil ég nefna hér eitt atriði sem leiðir kannski af því hvað við erum að sigla í mikilli þoku og vitum ekki alveg hvað er fram undan. Það er mikilvægi þess að tryggður sé réttur launafólksins sem fer í gegnum uppsögn á þessum forsendum þegar kemur að mögulegri endurráðningu til fyrirtækja og þá sérstaklega að atvinnurekandi fái ekki einhvers konar hreint borð, að launafólkið missi ekki þau áunnu réttindi sem það hefur, við það að fara í gegnum uppsagnarferlið.

En annað sem þarf líka að hugsa, eða spurningin sem þarf að spyrja, er: Hversu mörg eiga yfir höfuð von á því að vera endurráðin? Sú greining, sú sviðsmynd, kemur ekki fram í greinargerð frumvarpsins. En þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa vegna þess að sá hópur sem gæti orðið stór hluti af þeim sem verður sagt upp nú á næstu vikum, sá hópur sem ekki fær endurráðningu hjá viðkomandi fyrirtæki að þremur mánuðum loknum þarf að leita sér annarra starfa. Þá komum við að því sem heitir gjarnan í glærum ríkisstjórnarinnar viðspyrna, vegna þess að þessu fólki þarf t.d. að tryggja endurmenntunarúrræði til að það geti fundið sér nýjan vettvang. Það er verkefni sem við getum farið að prufukeyra fyrir þau umfangsmiklu umskipti sem við megum eiga von á þegar efnahagskerfi heimsins breytist til þess að við getum tekist á við loftslagsbreytingar. Hluti af sanngjörnum umskiptum er að gera launafólki kleift að skipta um starfsvettvang með því að sækja sér nýja þekkingu.

Síðan þurfum við að fara að horfa kannski lengra fram á veginn og þá er ég ekki endilega að tala langt inn í framtíðina heldur bara inn í haustið. Hér hefur umræðan verið mikið um sumarstörf handa fólki sem ekki fær vinnu eins og venjulega í sumar, en fyrir þann hóp sem ekki verður endurráðinn, eftir að hafa verið sagt upp á uppsagnastyrk, þá þurfum við að líta í verkfærakistuna sem við þekkjum frá því eftir hrun þar sem ráðist var í ýmiss konar átaksstörf þar sem ýtt var á ýmis nýsköpunarverkefni á vinnumarkaði til þess að fólkið sem ekki verður endurráðið geti fundið sér nýjan starfsvettvang.

Örstutt að samhenginu við frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Ég held að ég taki heils hugar undir með hæstv. fjármálaráðherra að samhengi þessara tveggja frumvarpa verði að skoða vel vegna þess að það er svo mikill hvati, fjárhagslegur og annars konar, í þessum tveimur málum til að sópa fólki í raun af hlutabótaleiðinni í uppsagnir, að við mættum jafnvel velta upp þeirri spurningu hvort í raun sé verið að leggja hlutabótaleiðina til hliðar, hvort uppsagnaleiðin verði þegar upp er staðið sú leið sem meginþorri fyrirtækja velur.

Þetta var um efni málsins, herra forseti, og nú er ég með eina spurningu er varðar form sem mig langar að bera upp við forseta. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í flutningsræðu sinni, með leyfi forseta: „Það verður að horfa á kostnaðarmatið í þessu máli í ákveðnu samhengi við frumvarp félagsmálaráðherra.“

Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvað það þýði nákvæmlega formlega séð þegar annað málið fer í efnahags- og viðskiptanefnd en hitt í velferðarnefnd. Hvernig verður tryggt að þessi tvö mál verði skoðuð í því samhengi sem hæstv. ráðherra kallaði sjálfur eftir ef þau eru hvort í sinni nefndinni? Þetta er eitthvað sem ég leita ásjár virðulegs forseta með.