150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég aldeilis hissa að hlusta hér á hv. þm. Vinstri grænna tala með þessum hætti. Er hv. þingmaður að segja að við getum ekki sett skilyrði um að þeir sem hafa nýtt sér skattaskjól eða aflandsfélög með einhverjum hætti, með alls konar fléttum, sem við vitum að margir gera, við þekkjum meira að segja sum fyrirtæki sem gera það — að ekki sé hægt að setja þau skilyrði sem við vitum bæði að sérfræðingar hafa sagt að sé hægt að gera? Tillaga Samfylkingarinnar, sem hv. þingmaður ákvað að samþykkja ekki, hefði einmitt útilokað þessa aðila. Það er nefnilega ekki nóg að skila einhverjum skýrslum um CFC. Þá þarf maður að vera Íslendingur sem á aflandsfélög. Hinir sem eiga heima t.d. í London, eiga aflandsfélög á Tortóla en reka samt fyrirtæki hér þurfa ekki að skila neinum CFC-skýrslum.

Ég veit að þetta er tæknilegt, herra forseti, en það eru einhvern veginn svona flækjur sem menn setja upp og segja síðan háheilagir í framan að það sé bara því miður ekki hægt að setja þessi skilyrði vegna þess að ekki sé ólöglegt að vera með skattaskjól. En er ólöglegt að greiða út arð? Nei, það er ekki ólöglegt að greiða út arð. Samt getum við sett skilyrði um arð. Er ólöglegt að hafa ekki tapað miklum tekjum í þeim vandræðum sem við erum nú í? Nei, en samt setjum við skilyrði um það. Við getum sett þau skilyrði sem okkur sýnist og við eigum að setja þau skilyrði sem eru réttlát þegar við erum að taka tugi milljarða úr ríkissjóði, í þessu tilviki til þess að verja eigendur fyrirtækja og hlutafé þeirra.