150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál og Miðflokkurinn hefur talað fyrir því alveg frá því að þessar fordæmalausu aðstæður skullu á okkur, þ.e. veirufaraldurinn, að horft yrði til þess að útvíkka ákvæðið um greiðslustöðvun í gjaldþrotalögum og ég hef átt þá umræðu hér við hæstv. ráðherra og þar kom einmitt fram að málið væri í skoðun vegna þess að eins og lögin eru í dag er mjög erfitt fyrir fyrirtæki að nýta sér úrræði um greiðslustöðvun sem er mjög gott úrræði þegar fyrirtæki lenda í vanda. Þar hefur helst staðið í vegi fyrir þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem fyrirtækin þurfa þá að fara í. Það hefur verið álitamál hvort veirufaraldurinn félli undir skilyrðin um fjárhagslega endurskipulagningu eins og hún kemur fyrir í gjaldþrotalögunum. Þannig að ég fagna þessu frumvarpi og verð að segja að það er ítarlegra en ég átti von á og það er bara gott mál. Við fyrstu sýn virðist vera þannig að það sé verið að vega að, ef svo má segja, rétti kröfuhafa til að hjálpa fyrirtækjum án þess að fyrirtækin þurfi að fara í greiðslustöðvun o.s.frv., þ.e. þetta kallast væntanlega greiðsluskjól og varir að mér sýnist í 12 mánuði ef rétt er. En það er sem sagt verið að búa til nýtt frumvarp og ég vildi kannski spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið niðurstaðan að þetta yrði skilvirkara með þessum hætti eða hvort það hefði verið hægt að fara hina leiðina fyrr í ferlinu, þ.e. fella þessar fordæmalausu aðstæður, veirufaraldurinn, undir skilyrðin hvað greiðslustöðvun varðar, hvort það hafi einnig verið skoðað.