150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[18:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Auðvitað stöndum við frammi fyrir stórum vanda, ekki þarf að tíunda það hér, og alls konar fyrirtæki eru í miklum erfiðleikum. Ferðaþjónustan er náttúrlega stór hluti af vinnumarkaðnum og svo margir starfsmenn sem hafa starfað hjá slíkum fyrirtækjum og þau eru flest pínulítil og við vitum ekkert hvenær ferðamenn fara aftur að koma. Samkvæmt þessu frumvarpi á dómari að kanna hvort greiðsluvandi fyrirtækisins eigi rót að rekja til efnahagslegra afleiðinga Covid-19 en ekki er gert ráð fyrir að fram fari rannsókn á því hvort líklegt sé að skuldara takist að ráða fram úr fjárhagslegri endurskipulagningu. Það er afskaplega mikilvægt að keyra ekki fyrirtæki í þrot í þessu ástandi af því að það er svo mikil óvissa. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún segir mikilvægt að þegar markaðir fari að opnast aftur verði snörp viðspyrna hjá fyrirtækjunum. En gæti þetta ekki líka orðið til þess að draga lausn vandans á langinn? Ég velti því fyrir mér af því að það eru engar skorður eins og ég skil frumvarpið, þótt ég eigi sannarlega eftir að kynna mér það betur, enginn sem metur hvort fyrirtækið hafi möguleika á að eiga einhverja viðspyrnu í raun, jafnvel þó að markaðir hafi opnast.