150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[18:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægt frumvarp sem við erum að ræða. Ég fagna því mjög að það sé komið fram því að það mun nýtast fjölda fyrirtækja til að halda starfseminni gangandi og þar með talið starfsfólki, launafólki í vinnu. Ég ætla vissulega að lengja þessa umræðu en afskaplega lítið. Mig langar að draga fram einn punkt hvað varðar þetta mál sem ég tel gríðarlega mikilvægt að huga að hvort ekki sé nægilega vel um búið og hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða það. Ég vona að vel sé hugað að því en ég vildi draga þetta fram. Þar er ég að vísa til þeirra fyrirtækja sem leigja starfsemi sína og eiga kannski í erfiðleikum með að greiða leigu, þ.e. þegar kröfuhafinn er ekki lánastofnun og þarf ekki að borga af láni heldur þegar um er að ræða leigu fyrir atvinnuhúsnæði. Það á náttúrlega við hvort sem er í einstaka samningum eða í samningum við fasteignafélög sem eiga kannski mikið húsnæði sem þau leigja út. Það þarf að huga að því að þetta nái upp alla keðjuna, að fyrirtæki sem missa tekjur sínar njóti skilnings hjá leigusalanum um að ekki sé hægt að greiða leigu. Það þarf að tryggja að það sé sama greiðsluskjólið hvað það varðar, að ekki sé hægt að ganga að eignum og rekstri fyrirtækja sem ekki geta staðið undir leigugreiðslum vegna tekjufalls sem Covid-19 hefur skapað.

Eins og ég segi þá fagna ég þessu frumvarpi. Vel má vera að hugað sé að því að úrræðið um greiðsluskjól nýtist þeim hópi sem ég nefndi líka. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða það þannig að þetta úrræði standi þeim sem leigja til boða því að ekki viljum við að það verði meiri samþjöppun og yfirtaka á rekstri hjá þeim sem þurfa að leigja húsnæði sitt en öðrum. Við viljum halda þessum fjölbreytta rekstri gangandi.