150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hlakka til að heyra seinna svar af því að það varðar einmitt tímabilið í viðurlögunum ef svo má segja. Það eru viðurlög þegar 15% álag leggst ofan á endurkröfurnar. Þetta er það langur tími, þrjú ár, frá 1. júní 2020 til 31. maí 2023, að maður veltir fyrir sér hvort fyrirtæki muni sleppa því að fara þessa leið og reyna mögulega eitthvað annað á meðan þau eru að brúa bil í skamman tíma. Við getum séð fyrir okkur tvær eða þrjár vikur til viðbótar meðan ástandið varir o.s.frv.

Mig langar að spyrja í lokin aðeins út í skattaskjól af því að í ákvæðinu er bara talað um þá sem eru með viðurkennda eignaraðild í fyrirtækjum á lágskattasvæði sem hafa gefið upp að þeir eigi þau fyrirtæki. Hvað með fyrirtækin sem eru raunverulega með eignir í skattaskjólum (Forseti hringir.) sem er jú feluleikur?