150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætissvar. Við þurfum kannski að víkja aðeins að öðru. Ég átti orðaskipti við hæstv. fjármálaráðherra hér fyrr í dag þegar hann mælti fyrir frumvarpinu um að ríkið taki þátt í uppsagnarfresti fyrirtækja og greiðslum í uppsagnarfresti. Það er þetta samspil, eins og komið var inn á áðan, hvort fyrir liggi greining á því — nú eru fyrirtæki sem gjarnan vildu nýta sér þessa leið áfram til að komast hjá uppsögnum — hve mörg fyrirtæki telja sig betur sett með að hlutabótaleiðin verði framlengd, og jafnvel fram að áramótum, frekar en að vera að setja fjármuni í að greiða uppsagnarfrest sem í raun hljómar eins og verið sé að hvetja til uppsagna (Forseti hringir.) þó að raunin eigi kannski að vera önnur, hvort til sé einhver greiningarvinna á þessu og einhver samanburður. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) vegna þess að það skiptir máli í þessari umræðu og í vinnu nefndarinnar.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)