150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég hlustaði á hana af athygli. Hv. þingmaður er einn af þeim þingmönnum Vinstri grænna sem halda því fram að það séu einhver sérstök skilyrði við öll þessi úrræði sem beinast að þeim sem nýta sér skattaskjól. Það eru ekki allir þingmenn Vinstri grænna sem halda því fram, t.d. var ég hér í andsvari við hv. þingmann sem er fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd og hann hélt því ekki fram að þessi skilyrði héldu að öllu leyti. Enda er það svo að þau gera það ekki. Talin eru upp skilyrði þess efnis að safna eigi saman upplýsingum sem nú þegar er skylt að veita samkvæmt lögum. Það eru ársskýrslur, það eru upplýsingar um raunverulega eigendur og það eru CFC-skýrslur frá þeim Íslendingum sem eiga félög í skattaskjólum. Þegar Panama-skjölin láku hér öll út og allur þessi fjöldi, hundruð manna, kom í ljós sem átti félög á lágskattasvæðum kom í ljós að megnið af þeim félögum höfðu ekki skilað CFC-skýrslum. Það eina sem ég sé jákvætt við þetta skilyrði í þeim úrræðum sem við ræðum hér, og hafa verið samþykkt, er að það séu einhverjar viðvörunarbjöllur til fyrirtækja sem eiga rætur á aflandssvæðum, hafa ekki skilað inn CFC-skýrslum, að hugsanlega yrði eitthvað (Forseti hringir.) tékkað á þeim. En þau útiloka ekki þá (Forseti hringir.) Íslendinga sem búa í London, eiga félag á Tortóla (Forseti hringir.) og reka fyrirtæki hér því að þau eiga ekki að skila CFC-skýrslu samkvæmt lögum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk.)