150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo stórkostlegur misskilningur á ferðinni hjá hv. þingmanni Vinstri grænna, og reyndar fleirum í hennar flokki, á tekjuskattslögunum, og þetta er svo himinhrópandi að það er eiginlega vandræðalegt að forystumenn stjórnarflokkanna skuli halda þvílíku bulli fram. Það er sorglegt. Það má vera að einhverjum hafi tekist frábærlega vel að blekkja og slá ryki í augu hv. þingmanna en ekkert af skilyrðunum sem sett eru fram í þeim frumvörpum sem við höfum rætt hér í dag, hvað þá hinum sem við afgreiddum fyrir helgi, halda gagnvart skattaskjólum. Ekki þarf annað en að skoða 57. gr. a í tekjuskattslögunum og reglugerðina sem ráðherra hefur gert, sem fylgir þeirri grein, til að skoða skilgreininguna á þessu. Það sem við vildum gera í Samfylkingunni var að vísa í íslensk tekjuskattslög og útiloka þá frá stuðningi ríkisins sem féllu undir þá skilgreiningu. Þá hefðum við náð þessu fólki. Það má vera að einhver hefði sloppið í gegn en við hefðum þetta þó í lögunum og eftir á hefðum við getað rannsakað og skoðað hvort menn hafi reynt að brjóta þessi lög. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er alþjóðlegt vandamál og Evrópusambandið er með skýr viðmið um það hvernig þeirra ríki glíma við skattaskjólin. Danir settu upp þau viðmið og þeir gerðu líka annað, þeir fjórfölduðu refsinguna við að reyna að nota úrræði vegna Covid (Forseti hringir.) í öðrum tilgangi en þau væru hugsuð og þeir fjölguðu skattrannsóknafólkinu (Forseti hringir.) um 250. Við gerum ekki rassgat hér.