150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu stutta frumvarpi. „Skilvirk“ hefur margslungna merkingu hér, stundum til bóta og stundum ekki. Í þessu tilviki vona ég að meðferð mála og greiðsla atvinnuleysisbóta verði skilvirkari.

Ég kom hingað upp til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í upplýsingaöflun Vinnumálastofnunar, þ.e. að stofnunin geti aflað upplýsinga frá Tryggingastofnun, Sjúkratryggingum Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, lánasjóðnum og fleirum, sem og lögreglu. Lögreglu verði jafnframt skylt að láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Þarna er verið að veita víðtæka heimild til að afla upplýsinga og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta frumvarp hafi verið greint með tilliti til persónuverndarlaga og hvort Persónuvernd hafi komið að því að þetta frumvarp var samið.